Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Tengslanet Saxhóls

Talsverðar umræður hafa orðið um skrif hér á síðunni varðandi tengsl Jóns Þorsteins Jónssonar.  Er það vel, enda gildir enn hið fornkveðna; að orð séu til alls fyrst.   Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað og þeirrar staðreyndar að þrátt fyrir að orð séu til alls fyrst verður stundum að láta verk fylgja máli þykir okkur rétt að taka eftirfarandi fram í upphafi þessarar færslu:

  1. Rakel hefur verið stofnfjáreigandi frá 1998 (í SPK).  Þó að það kunni að hljóma væmið berum við einfaldlega taugar til Byrs. Við skuldum ekkert í okkar stofnfjárbréfum (greiddum stofnfjáraukninguna 2007 úr eigin vasa, auk þess að taka lán hjá Glitni sem var svo greitt að fullu við arðgreiðsluna 2008).  Okkar hagsmunir fara saman við hagsmuni Byrs og við viljum því að fyrirtækið fái tækifæri til að vaxa og dafna.
  2. Upphafið af því að við hjónin fórum opinberlega að sýna Byr áhuga er sú staðreynd að við komumst að raun um að stjórnarmenn í sparisjóðnum, þeir Jón Þorsteinn Jónsson og Birgir Ómar Haraldsson höfðu selt félaginu Exeter Holdings mikið magn stofnfjárbréfa (Jón Þorsteinn 54 milljónir bréfa, Birgir Ómar 64 milljónir).  Byr hafði lánað Exeter Holdings fyrir kaupunum, gegn 100% veði í bréfunum. Þetta fannst okkur óeðlilegt og stríddi gegn réttlætiskennd okkar.
  3. Við hjónin ræddum það mikið, áður en við ákváðum að segja frá málinu opinberlega, hvernig best væri að fylgja uppgötvunum okkar eftir.  Haft var samband við Fjármálaeftirlitið, sem sýndi málinu í upphafi afar lítinn áhuga.  Við töldum það rétt stofnfjáreigenda og Íslendinga allra að fá að vita sannleikann og fórum því í Kastljós með málið.
  4. Í kjölfarið myndaðist stór hópur fólks sem vildi taka á spillingarmálum innan Byrs sparisjóðs.  Þessi hópur hefur gjarnan verið kenndur við A-listann.  Því miður beið A-listi nauman ósigur í vafasömum kosningum til stjórnar Byrs á aðalfundinum 13. maí sl.
  5. Eins og áður hefur komið fram er það okkar mat að Byr sé og hafi á margan hátt verið heilbrigt fyrirtæki, sér í lagi ef miðað er við íslenskar fjármálastofnanir almennt.  Til vitnis um það má t.d. nefna að þjónusta við viðskiptavini hefur verið með því allra besta sem finnst á íslenskum fjármálamarkaði, launum hefur verið haldið innan skynsamlegra marka og að Byr tók ekki þátt í Exista ævintýrinu sem farið hefur illa með marga aðra íslenska sparisjóði. 
  6. Það er öllum ljóst að talsverð tiltekt er eftir í íslensku fjármálalífi.  Slík tiltekt er nauðsynleg svo að þjóðin geti aftur öðlast traust á fjármálakerfinu.  Slíkt traust er svo aftur ein af forsendum þess að takast megi að endurreisa íslenskt efnahagslíf.  Að okkar mati er það besta leiðin til að endurvekja traust að stunda gagnrýna og upplýsta umræðu.  Það er það sem við reynum að gera með skrifum okkar hér á síðunni.  Það er okkar von að upplýst umræða verði til þess að flýta fyrir endurreisn Byrs og gera Íslendingum öllum ljóst að Byr er fyrirtæki sem vill gera hreint fyrir sínum dyrum, vill stunda heiðarlega viðskiptahætti og styðja þjóðina þannig í þeirri baráttu sem framundan er.  Sannleikurinn er sagna bestur.

 

Eftir þennan langa inngang er rétt að koma sér að umfjöllunarefninu. 

Hér að neðan má finna mynd sem sýnir tengsl Jóns Þorsteins Jónssonar og Saxhóls við önnur íslensk fyrirtæki.  Þessi mynd byggir á þeirri greiningu sem við höfum unnið.  Þar koma ekki fram öll smáatriði myndin getur verið ágæt til að glöggva sig á heildinni.  Myndin verður einnig sett í myndaalbúm hér hægra megin á síðunni.  Allar leiðréttingar og/eða ábendingar eru vel þegnar.

Saxhóll - tengingar


Saxhóll, Saxbygg og tengslin við Glitni

Saxhóll er félag sem hefur haft mikil áhrif á Byr sparisjóð.  Ekki verður farið í sögu þess félags í smáatriðum hér, en félagið er í eigu Nóatúnssystkynanna, afkomenda Jóns Júlíussonar og Oddnýjar Steinunnar Sigurðardóttur.  Þau eru: þau Júlíus Þór (1956), Sigrún (1956), Rut (1959), Einar Örn (1963) og Jón Þorsteinn (1969). 

  Saxhóll á helmingshlut í Saxbygg, á móti BYGG – Byggingafélagi Gylfa og Gunnars.  Saxbygg er með marga arma, s.s. Saxbygg Investments London og Saxbygg Investments Berlin, en til einföldunar verður hér notast við Saxbygg sem heiti yfir dótturfélögin einnig.   

Í upphafi skal endinn skoða.  Saxbygg óskaði eftir gjaldþrotaskiptum 15. Maí 2009 – tveimur dögum eftir aðalfund Byrs, þar sem fyrirtækið neytti atkvæðisréttar síns, ef að líkum lætur.  Félagið var umsvifamikið á fasteignamarkaði, auk þess að eiga um 5% í Glitni.

 

Björn Ingi Sveinsson var framkvæmdastjóri Saxbygg.  Athyglisvert er, og spurning hvort það sé tilviljun, að Björn Ingi Sveinsson var síðasti sparisjóðsstjóri SPH fyrir „hallarbyltinguna“ margfrægu, en Björn Ingi var ráðinn til Saxbygg í janúar 2006.  Þá hafði hann einungis verið fjóra mánuði sparisjóðsstjóri í SPH.  Eftirmaður hans í sparisjóðsstjórastólnum þar var Magnús Ægir Magnússon, sem var svo sparisjóðsstjóri hjá Byr, ásamt Ragnari Z. Guðjónssyni.  Magnús Ægir lét af störfum hjá Byr upp úr miðjum nóvember 2008, rúmum mánuði eftir að Jón Þorsteinn Jónsson og fleiri innherjar hjá Byr höfðu losað stofnfjárbréf sín til Exeter Holdings.

 

Saxbygg var stærsti eigandinn í Eik properties, sem var næststærsta fasteignafélag Íslands við stofnun þess í júní 2008.  Eik properties átti m.a. 64% hlut í Glitnir Real Estate Fund hf (http://www.vb.is/frett/1/44390/).  Glitnir Real Estate Fund átti svo m.a. 100% hlut í Norska félaginu Gref 1. 

 

Þegar upplýsingar um Gref 1 eru skoðaðar á vefsíðu Dagens Næringsliv í Noregi kemur í ljós að í stjórn Gref 1 sitja Ríkharð Ottó Ríkharðsson (1969), Björn Ingi Sveinsson (1951) og Ingvi Jónasson (1973).  Ríkharð Ottó  er starfsmaður Íslandsbanka í dag og mætti fyrir hönd Íslandsbanka (Glitnis) á aðalfund Byrs 13. maí sl. Talið er fullvíst að Ríkharð Ottó hafi skilað auðum atkvæðaseðli á fundinum.  Á vefsíðu Dagens Næringsliv vekur sérstaka athygli að þeir þremenningarnir virðast hafa myndað stjórnina 9. Febrúar 2009, en ekki hefur verið skipt um stjórnarmeðlimi enn, þrátt fyrir að brátt séu liðnir þrír mánuðir frá því að Saxbygg komst í þrot (http://www.dn.no/bedriftsbasen/proff/?companyNo=990479208&id=990479208&page=roles).

Ingvi Jónasson, sem situr í stjórn Gref 1 er framkvæmdastjóri Klasa hf, en eigandi Klasa er Sigla ehf.  Eigendur Siglu ehf eru svo þeir Finnur Reyr Stefánsson, Tómas Kristjánsson og Þorgils Óttar Mathiesen.  Finnur Reyr og Tómas Kristjánsson voru báðir nánir samverkamenn Bjarna Ármannssonar hjá Glitni. Þorgils Óttar Mathiesen varð forstjóri Sjóvár í mars 2004, en þá var félagið í eigu Glitnis.  Þorgils Óttar gegndi starfinu fram í nóvember 2005, þegar hann keypti 40% hlut í Klasa og átti þá félagið ásamt Sjóvá og Glitni.

 

Hér á síðunni hefur áður verið bent á að Samkeppniseftirlitið taldi í maí 2008 að sömu aðilar (Baugur, Gaumur, FI-Fjárfestingar, Saxhóll, Sólstafir, Materia og BYGG) réðu Byr og Glitni og að það bæri að tilkynna samruna félaganna.  Þeim úrskurði var hrundið þann 5. september af áfrýjunarnefnd samkeppnismála.  Í henni átti m.a. Lárus L. Blöndal sæti, en hann er hluthafi í Veisluturninum ehf ásamt Jóni Þorsteini Jónssyni m.a.  

Fyrir stofnfjáreigendur sem skulda Glitni margir hverjir verulega fjármuni eftir stofnfjáraukningu í lok árs 2007, líta þessi hagsmunatengsl óneitanlega ankannalega út og er því ekki að neita að orðið misnotkun hefur heyrst meðal einhverra stofnfjáreigenda.

Jón Þorsteinn og fasteignafélögin

Eins og áður hefur verið vikið að hér á síðunni, fór Jón Þorsteinn Jónsson mikinn í hinu sérstaka viðskiptaumhverfi sem ríkt hefur hér á landi frá aldamótum um það bil.  Eitt af því sem Jón tók sér fyrir hendur var rekstur fasteignafélaga. 

 

Jón er, eins og flestir margir stórlaxar, stjórnarmaður í mörgum félögum.  Eitt þeirra er Deildarás ehf (591000-3490).  Markmiðið með tilveru þess félags er leiga atvinnuhúsnæðis.  Jón er sjálfur búsettur í Deildarási. 

 

Annað félag, öllu stærra, sem Jón hefur komið nærri er Fasteignafélag Íslands.  Fasteignafélag Íslands sameinaðist fleiri fasteignafélögum á árinu 2008 og úr varð fasteignafélagið Eik properties (Eik).  Eik var í ríflega helmingseigu Saxbygg, félags Saxhóls og BYGG.  Saxhóll er í eigu Nóatúnssystkynanna, með Jón Þorstein fremstan í flokki. 

 

Eik var annað stærsta fasteignafélag landsins, á eftir Landic Property.  Athygli vekur að SPV Fjárfesting, sem er dótturfyrirtæki Byrs, á tæp 2% í félaginu.  SPV fjárfesting á einnig, eins og fjallað hefur verið um áður hér á síðunni, 10% í hinu sérstaka félagi Stím, sem notað var til að halda hlutabréfaverði í Glitni uppi, með lánsfé úr Glitni.  Saxbygg átti einmitt um 5% hlutafjár í Glitni.  Það er „skemmtileg tilviljun“ að það einmitt Glitnir sem á Eik með Saxbygg og SPV Fjárfestingu, en m.v. umfjöllun Samkeppniseftirlitsins frá miðju ári 2008 réði Saxbygg yfir 51,66% hlutafjár í Eik, Glitnir yfir 46,35% og SPV Fjárfesting yfir 1,75% (sjá hér). 

 

Í ljósi vafasamra viðskipta Jóns Þorsteins með stofnfjárbréf í Byr í október 2008, þar sem Exeter Holdings tók við 54 milljónum stofnfjárhluta sem voru í hans eigu er nauðsynlegt að öll fasteignaviðskipti Eik sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins og fram á þennan dag verði skoðuð sérstaklega.  Fasteignir hafa áður verið seldar á yfir-og /eða undirverði ef slíkt hefur þótt henta.  Til að fyrirbyggja allan grun um slíkt verður rekstur Eik að vera uppi á borðinu.


Jón Þorsteinn og Stím

Hið sérstaka félag Stím ehf, sem Jakob Valgeir, útgerðarmaður úr Bolungarvík var í forsvari fyrir, fjárfesti á tímabili þétt í Glitni. Glitnir lánaði félaginu til kaupanna, en þó var lagt fram nokkuð eigið fé.

 

Viðskipti Stíms með bréf í Glitni þykja mörgum hafa verið lýsandi fyrir þá iðju manna í viðskiptalífinu að halda hlutabréfaverði uppi á fölskum forsendum.

 

Fyrir stofnfjáreigendur Byrs er rétt að halda því til haga að SPV fjárfesting, dótturfélag Byrs, átti 10% hlut í Stím. Vart þarf að taka fram að hlutafé í Stím er í dag einskis virði, enda hafði rekstur SPV fjárfestingar veruleg neikvæð áhrif á afkomu Byrs á sl. ári, skv. ársreikningi.

 

Forsvarsmenn SPV fjárfestingar hafa verið hljóðir um tilurð kaupa félagsins á hlutum í Stím. Eðlilegt verður að teljast að tilurð þessara kaupa verði upplýst, enda um dótturfélag Byrs að ræða. Ef raunin er sú, sem haldið hefur verið fram, að Stím hafi verið notað til að halda hlutabréfaverði í Glitni uppi með óeðlilegum hætti, hljóta tengsl Jóns Þorsteins Jónssonar, fyrrverandi stjórnarformanns í Byr að þarfnast sérstakrar rannsóknar við, en Jón Þorsteinn var stór hluthafi í Glitni í gegnum Saxbygg.

 

Saxbygg var sameiginlegt félag Saxhóls og BYGG. Bæði Saxhóll og BYGG eru enn stórir stofnfjáraðilar í Byr. Þá væri eðlilegt að stofnfjáraðilar í Byr fengju upplýsingar um það að hvaða marki BYGG og Saxhóll fái að nýta atkvæðisvægi sitt á fundum Byrs, en sameiginlegt vægi þessara tveggja aðila er langt umfram þau 5% sem tengdir aðilar mega halda á að hámarki.


Jón Þorsteinn kemur víða við

Jón Þorsteinn Jónsson hefur komið víða við á misjöfnum viðskiptaferli sínum.  Jón hefur stundað ýmsar fjárfestingar, en hann er matreiðslumaður að mennt.  

 Jón er fyrrverandi stjórnarformaður Byrs og forsvarsmaður Saxhóls.  Hann hefur stundað ýmis viðskipti með þekktum aðilum úr viðskiptalífinu, Steina í Kók, Magnúsi Ármanni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hannesi Smárasyni.  Miðað við upplýsingar sem koma fram í lánabók Kaupþings vekur það nokkra athygli að Saxhóll skuli enn ráða yfir rúmum 7% stofnfjár í Byr og þar með 5% af atkvæðavægi.   

Jón Þorsteinn á m.a. hlut í Veisluturninum í Kópavogi.  Þar á einnig hlut Lárus L. Blöndal, en hann átti sæti í þeirri áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem fjallaði um kæru Saxhóls, Baugs og fleiri félaga í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið úrskurðaði að sömu aðilar réðu Byr og Glitni og bæri að tilkynna samruna Byrs og Glitnis.  Þessi úrskurður kom fram í maí en var hrundið 5. september. af áfrýjunarnefndinni.  Veisluturninn opnaði með pomp og pragt 22. maí 2008, ef marka má: http://www.freisting.is/displayer.asp?page=142&Article_ID=2950&NWS=NWS&ap=NewsDetail.asp&p=ASP\~Pg142.asp

Jón Þorsteinn var einnig í stjórn Lífsvals, þegar Morgunblaðið gerði úttekt á jarðakaupum auðmanna árið 2007.  Jón sat reyndar einnig í stjórn annars jarðakaupafélags - Svartagils - en í varastjórn Svartagils sat einmitt Ágúst Sindri Karlsson, sem er stærsti eigandinn að Exeter Holdings.  Exeter Holdings tók við 54 milljónum af stofnfjárbréfum Jóns Þorsteins við hrun bankanna, 7. október 2008.

Jón hefur komið að ýmsum fleiri félögum.  Saxbygg, félag Saxhóls og BYGG, átti m.a. stóran hlut í Glitni við fall hans. 

Okkur hafa borist ýmsar ábendingar um feril Jóns Þorsteins og hvetjum við fólk til að senda okkur meira af slíku, enda áhugavert að kynna sér feril þess manns sem stýrði Byr þegar þar töpuðust tugir milljarða sem lagðir voru inn í stofnfjáraukningunni 2007.


Stórir stofnfjáreigendur í Byr mjög skuldugir í Kaupþingi

Það þarf ekki lengi að lesa upplýsingar sem RÚV vísaði til í gær, til að átta sig á því að ýmsir stofnfjáreigendur í Byr skulda Kaupþingi verulegar upphæðir.  Saxhóll skuldaði t.d. verulegar fjárhæðir í Kaupþingi við fall bankans, ef marka má gögnin sem fram eru komin og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. 

Saxhóll er eins og vel er þekkt, m.a. í eigu Jóns Þorsteins Jónssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Byrs.  Jón Þorsteinn framseldi rúmar 54 milljónir stofnfjárbréfa til Exeter Holdings í október 2007.  Fram hefur komið að þau bréf voru greidd með yfirdráttarláni frá Byr, sem einungis var tryggt með veði í stofnfjárbréfunum sjálfum.

Saxhóll er jafnframt 50% eigandi að Saxbygg, en Saxbygg var m.a. meðal eigenda í Shelley Oak, sem Sigrún Davíðsdóttir fjallaði um á Eyjunni fyrir nokkru.  Lesa má um það hér: http://eyjan.is/blog/2009/07/13/frettaauki-eyjunnar-um-sparisjodinn-byr-hefur-tapad-25-milljordum-a-fasteignabraski-i-englandi/

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ábending til nýs forstjóra MP Banka

Nýr forstjóri MP Banka, Gunnar Karl Guðmundsson, var í viðtali í Viðskiptablaðinu 23. júlí.  Þar segir Gunnar Karl m.a:

"Bankinn [MP Banki] var ekki með neina stöðutöku í bönkum fyrir hrun og var jafnframt vel varinn gagnvart gengissveiflum og verðbólgu"

Stofnfjáreigendur Byrs eru væntanlega ekki alveg sammála Gunnari í þessum efnum, enda losaði MP Banki sig við hundruði milljóna stofnfjárhluta til Exeter Holdings, haustið 2008 - eftir bankahrun.  Eins og margoft hefur komið fram er Ágúst Sindri Karlsson, fyrrum skákmaður, forsvarsmaður Exeter Holdings.  Ágúst Sindri var einn þriggja stofnenda MP Verðbréfa og hefur verið viðskiptafélagi Margeirs Péturssonar um árabil.

Gunnar Karl er annars fyrrum forstjóri Skeljungs og gegndi því starfi í sex ár.  Hann hefur verið starfsmaður Skeljungs um árabil.


Samkeppniseftirlitið taldi tengsl Glitnis og Byrs óeðlileg

Það er athyglisvert að skoða úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr 11/2008.

 

Tilurð málsin er sú að velþekktu fyrirtæki:

 

Baugur Group hf. og Jötunn Holding ehf.

Fjárfestingafélagið Primus ehf.

FL group hf. (nú Stoðir hf.)

Materia Invest ehf. og

Saxhóll ehf. og BYGG ehf.

 

Áfrýjuðu úrskurði samkeppniseftirlitsins frá 26.maí 2008, þess efnis að tilkynna skyldi samruna Byrs og Glitnis.   Til að gera langa sögu stutta felldi áfrýjunarnefndin þennan úrskurð úr gildi.

Í úrskurðinum segir m.a.:

Með bréfum dagsettum 20., 21. og 23. júní 2008 hafa Baugur Group hf. og Jötunn Holding ehf., Fjárfestingafélagið Primus ehf., FL Group hf. (nú Stoðir hf.), Materia Invest ehf. og Saxhóll og BYGG ehf., kært ákvörðun sem þeim var kynnt með bréfi Samkeppniseftirlitsins, dagsettu 26. maí 2008, þess efnis að framangreind félög, sem og Imon ehf. og Sund ehf., fari með sameiginleg yfirráð yfir Glitni banka hf. og Byr sparisjóði og að þeim beri að tilkynna samrunann í samræmi við ákvæði 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005

Nánar má lesa um úrskurðinn hér:

http://www.samkeppni.is/samkeppni/upload/files/afriunarnefnd_samkeppnismala/2008/urskurdur11_2008.pdf

 


Áhugavert blogg um sameiningu SPNOR og Byrs

Við vorum beðin um að benda á eftirfarandi athugasemd af bloggi Gunnars Axels Axelssonar.

http://gunnaraxel.blog.is/blog/gunnaraxel/entry/678567/ 

7.          Atvinnumál / byggðamál - málefni Sparisjóðs Norðlendinga
2007110054
Að ósk bæjarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs Baldvins H. Sigurðssonar og Kristínar Sigfúsdóttur fóru fram umræður um atvinnumál/byggðamál - málefni Sparisjóðs Norðlendinga.

Baldvin og Kristín lögðu fram tillögu að bókun svohljóðandi:
   "Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum samruna Sparisjóðs Norðlendinga við BYR. Mikil eftirsjá er í því þegar svo öflug fjármálastofnun sem er á forræði heimamanna er lögð inn í stóra samsteypu á höfuðborgarsvæðinu. Við það glatast yfirráð heimamanna yfir gríðarmiklum sjóðum sem hafa um árabil verið nýttir til að styrkja nærsvæði Sparisjóðs Norðlendinga í samræmi við markmið og tilgang Sparisjóða.  Í stað þess verður Sparisjóður Norðlendinga að útibúi frá BYR sem veikir stöðu og sjálfstæði hans. Bæjarstjórn Akureyrar lýsir einnig vonbrigðum yfir því að stjórn Sparisjóðs Norðlendinga hafi ekki skoðað möguleika sem önnur fjármálafyrirtæki, svo sem eins og KEA og Saga Capital, höfðu bent á til að styrkja sjálfstæði og stöðu sjóðsins í heimabyggð."

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með 5 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Baldvins H. Sigurðssonar og Kristínar Sigfúsdóttur.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir, Margrét Kristín Helgadóttir, Oddur Helgi Halldórsson og Gerður Jónsdóttir sátu hjá við afgreiðslu.

Bæjarstýran á Akureyri hefði í raun átt að víkja við umfjöllun málsins en gerði það ekki heldur greiddi atkvæði, það má sjá í fundargerðum.

Bæjarstýran er eiginkona fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Norðurlands, sem þá var hættur en tekinn við starfi sem framkvæmdastjóri Lífsvals ehf. Það fyrirtæki er stofnað utan um uppkaup á jörðum á Íslandi og á nú vel á annað hundrað jarðir að talið er (fyrirtækið hefur frá upphafi verið svo mikið felufyrirtæki að forsvarsmenn þess svara ekki spurningum fjölmiðla, þetta sést þegar maður reynir að gúggla upplýsingar um það).

Stjórnarmaður og einn af eigendum Lífsvals ehf var og er líklega ennþá, Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byrs (aftur settur sá fyrirvari að hvergi er að hafa nýjar upplýsingar á vefnum um þetta vel falda fyrirtæki).

Þau liggja víða krosstengslin. 


Breytingar á stofnfjáreign í Byr

Okkur var send eftirfarandi færsla: 

 

Nokkrar áhugaverðar breytingar hafa átt sér stað á lista yfir stærstu stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði.

1) Bygg Invest hefur fært stofnfjárbréf sín inn í sérstakt félag sem kallast CDG ehf. Bygg, sem á um 4% í Byr, stendur höllum fæti eftir fall fjárfestingafélagsins Saxbyggs auk þess sem gúrkutíð í byggingariðnaði hlýtur að taka sinn toll. Sigrún Davíðsdóttir fullyrðir reyndar í pistli sínum á Eyjunni að Bygg sé þrotafélag.


2) Bréf sem voru í vörslu Kaupthing Luxembourg hafa verið færð beint á eigendur. Þar er annars vegar hlutur Rona Financials Ltd., og hins vegar hlutur tískudrottningarinnar Karenar Millen. Athygli vekur að Kaupþing banki hefur leyst til sín 2% hlut í Byr sem ku hafa verið í eigu Stanford.

3) Systkinin sem eiga Bernard ehf., Honda-umboðið á Íslandi, hafa fært bréf sín inn í Bernard. Meðal þeirra er Guðmundur Geir Gunnarsson, stjórnarmaður í Byr. Það að stjórnarmaður skuli eiga í innherjaviðskiptum með því að færa bréf sem eru í persónulegri eigu sinni yfir á fyrirtækið vekur auðvitað athygli. Fari svo að stofnfé í BYR verði fært niður þegar ríkið kemur inn með fjármagn eins og hvítur riddari munu lögaðilar geta nýtt sér niðurfærsluna sem kostnað í rekstri á meðan einstaklingar sitja í súpunni - eins og alltaf. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband