Leita í fréttum mbl.is

Markaðsmisnotkun starfsmanna Glitnis?

Allnokkrir hafa bent á þann mun á málsmeðferð sem starfsmenn Kaupþings virðast fá hvað varðar skoðun á þeirra málum og svo mál starfsmanna Glitnis.  Eins og alþjóð veit hefur sérstakur saksóknari til skoðunar málefni einhverra starfsmanna Kaupþings hvað varðar mögulega markaðsmisnotkun og eflaust ekki annars að vænta en að þau mál verði skoðuð ofan í kjölinn og þeir sem raunverulega ábyrgð bera verði látnir sæta henni.

Öðru máli virðist gegna um starfsmenn Glitnis, sem þó taka þátt í aðgerðum sem hafa áhrif á markaðsverð hlutabréfa Glitnis einungis um fjórum mánuðum áður en Glitnir féll, þ.e. í maí 2008. Önnur dæmi um aðgerðir starfsmanna og stjórnarmanna Glitnis má auðvitað benda á, t.a.m. STÍM-málið sem margoft hefur verið fjallað um. 

Áhugavert er að skoða tilkynningu Glitnis um nýja framkvæmdastjóra sem fór á netið 14.5.2008.  Nákvæmlega viku áður, 7.maí 2008 er stofndagur fyrirtækja flestra þeirra starfsmanna sem keyptu í maí 2008 (fyrstu sex stafir í kennitölu fyrirtækis sýna stofndag þess (tölustafurinn fjórir þýðir í raun núll í kennitölu fyrirtækis, fimm þýðir einn o.s.frv.; dæmi: 470508-0780 er stofnað 7. maí 2008). 

Það er væntanlega ekki tilviljun sem réði því að allir þessir starfsmenn ákváðu að stofna félög sama daginn.  Það er væntanlega ekki heldur tilviljun að þessir sömu menn tilkynntu ekki hlutabréfakaup sín til kauphallarinnar: http://mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/06/18/tilkynntu_ekki_kaup/

Regluvörður Glitnis, Kristinn Arnar Stefánsson segir um málið: „Þarna voru menn ekki komnir í framkvæmdastjórn formlega og því var ekki skylt að tilkynna þetta,“

Í ljósi skýringa regluvarðar Glitnis í greininni hlýtur að vera eðlilegt að spyrja:  

  • Vissu tilvonandi framkvæmdastjórar af væntanlegri stöðuveitingu sinni þegar kaupin fóru fram?
  • Vissu tilvonandi framkvæmdastjórar af væntanlegri stöðuveitingu sinni þegar félögin voru stofnuð?
  • Hversvegna voru félögin stofnuð?
  • Var staðið löglega að kaupum starfsmanna Glitnis á hlutabréfum í bankanum?

Nokkrir áhugaverðir hlekkir:

http://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/frettir/nanar/item11298/Glitnir_skipar_nyja_menn_i_framkvaemdastjorn/ 

http://rna.clara.is/Kafli_10.3

http://www.verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/entry/1062390/


Fundur stofnfjáreigenda 10. júní

Fundur stofnfjáreigenda hefur verið færður til 10. júní.  Eftirfarandi er tekið af www.stofnfe.is

Samtök stofnfjáreigenda í BYR sparisjóði (SSB) boða til fundar stofnfjáreigenda n.k. fimmtudag (10. júní) klukkan 17.00. Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum Byrs Borgartúni, nánar tiltekið matsal.

Fundarefni:

1. Eggert Þór Aðalsteinsson mun fara yfir stuttlega yfir stöðu mála og velta fyrir sér framtíðarhlutverki SSB
2. Sveinn Margeirsson: Lánveitingar Glitnis – Sanngirni í hávegum höfð?
3. Hróbjartur Jónatansson hrl. fer yfir stöðu málaferla gagnvart ISB
4. Gísli Jafetsson fer yfir framtíðarhugmyndir sparisjóðanna
5. Kosning nýrrar stjórnar
6. Önnur mál


Fundur stofnfjáreigenda

Eftirfarandi er tekið af vefsíðu samtaka stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði, www.stofnfe.is.  Ástæða er til að hvetja stofnfjáreigendur til að fjölmenna á fundinn.

Samtök stofnfjáreigenda í BYR sparisjóði (SSB) boða til fundar stofnfjáreigenda n.k. mánudag (7. júní) klukkan 17.00. Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum Byrs Borgartúni, nánar tiltekið matsal.

Fundarefni:

1. Eggert Þór Aðalsteinsson mun fara yfir stuttlega yfir stöðu mála og velta fyrir sér framtíðarhlutverki SSB
2. Sveinn Margeirsson: Lánveitingar Glitnis - Sanngirni í hávegum höfð?
3. Gísli Jafetsson fer yfir framtíðarhugmyndir sparisjóðanna
4. Kosning nýrrar stjórnar
5. Önnur mál

SSB hafa verið í ákveðinni pattstöðu eftir hið hörmulega fall sparisjóðsins. Ætlunin var að halda aðalfund félagsins í maí á sama tíma og Byr héldi sinn aðalfund en fall sparisjóðsins hefur óneitanlega strik í reikninginn. Flestir núverandi stjórnarmanna hafa ekki áhuga að starfa áfram fyrir félagið og því er brýnt að fá til starfa nýtt fólk hafi stofnfjáreigendur, sem eru innan vébanda SSB, áhuga að reka félagið áfram og nýta þann grunn sem fyrir er. Nú er staðan þannig að stofnféð er verðlaust en a.m.k. 500 stofnfjáreigendur sitja uppi með "skuldir" gagnvart Íslandsbanka. Þá er ótalinn mikill fjöldi sem skuldar öðrum bönkum. 

Stefnt er að því senda fundinn út til útibús Byrs á Akureyri.

Ég vonast til að sjá sem flesta þótt fyrirvarinn sé e.t.v stuttur.

Bestu kveðjur,

Eggert Þ. Aðalsteinsson


Lán starfsmanna Glitnis

Stjórn Íslandsbanka virðist hafa tekið ákvörðun um að leysa starfsmenn bankans undan því að þurfa að greiða lán sem þeir tóku til kaupa á hlutabréfum í maí 2008.  Stofnfjáreigendur í Byr hljóta að hafa þetta til hliðsjónar þegar ræddar verða kröfur á hendur þeim um greiðslur á lánum sem stofnfjáreigendur tóku til stofnfjáraukningar í Byr síðla árs 2007.  

http://www.ruv.is/frett/vilja-einkahlutafelog-i-gjaldthrot

Þeir starfsmenn sem tóku lán í maí 2008 voru (kennitala félags, starfsmaður og lán í milljónum; heimild: skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, kafli 10.3):

Kt ehf Starfsm Lán m.kr 
470508 1590 Bjarni Jóhanness. 171
470508 1830 Elmar Svavarss. 171
680108 0720 Ari Daníelsson 171
681207 1630 Friðf. R. Sigurðss. 171
681207 2010 Stefán Sigurðsson 171
470508 1240 Rúnar Jónsson 341
410604 2640 Haukur Guðjónss. 480
470508 0940Magnús P. Örnólfsson 512
470508 1160 Ingi R Júlíusson 512
470508 0430 Eggert Þór Kristófersson 512
470508 0190 Einar Ö Ólafsson 800
470508 0270 Magnús A Arngr. 800
470508 0350 Vilhelm Már Þorsteinsson 800
470508 0780 Jóhannes Baldursson 800
470508 3100 Rósant M Torfason 800
410604 2560 Kristinn Þ Geirsson 1.228


Nauðsynlegt að rannsóknarnefnd sparisjóða verði stofnuð

Það er gleðiefni að Sigrún Björk Jakobsdóttir hafi axlað ábyrgð á þeim mistökum sem hafa leitt af sér fylgishrun Sjálfstæðisflokksins.  Ástæða er til að hrósa henni fyrir það og hvetja aðra stjórnmálamenn til að líta í eigin barm.

Eins og margoft hefur komið fram hér á síðunni er Sigrún Björk eiginkona Jóns Björnssonar, f.v. sparisjóðsstjóra SPNOR og núverandi framkvæmdastjóra Lífsvals. 

Sparisjóðirnir fóru afar illa út úr viðskiptum sínum á fyrsta áratug 21. aldarinnar.  Margt bendir til þess að tengsl viðskiptalífs, stjórnamála og bankastarfsemi hafi spilað þar stóran þátt, líkt og í tilviki hinna þriggja stóru viðskiptabanka.  Nauðsynlegt er að skipuð verði rannsóknanefnd um starfsemi íslenskra sparisjóða frá aldamótum, sem hafi það hlutverk að skoða ástæður og aðdraganda hruns sparisjóðakerfisins.  Slíkt hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa allra fyrrum stofnfjáreigenda í sparisjóðum á Íslandi og Íslendinga allra.


mbl.is Sigrún Björk segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ómissandi" starfsmenn sleppa

Í maí 2008 lánaði Glitnir fjórtán framkvæmdastjórum og lykilstarfsmönnum alls 8,1 milljarð til kaupa á hlutabréfum í bankanum til þess að hvetja þá til að starfa áfram í bankanum. RNA vekur athygli á að þetta hafi gerst aðeins fáum vikum eftir að Þorsteinn Baldvinsson, stjórnarformaður bankans, lét þau orð falla á aðalfundi Glitnis kaupréttarsamningar yrðu ekki gerðir við starfsfólk eins og staðan væri.

Á sama tíma og Íslandsbanki skilar 32 milljarða króna hagnaði hefur yfirstjórn bankans hvatt þessa svokölluðu lykilstarfsmenn til þess að fara með eignarhaldsfélög, sem keyptu hlutabréf í gamla bankanum, í gjaldþrot, enda er búið að afskrifa lán félaganna að fullu og líklega engar persónulegar ábyrgðir á bak við lánin. Hjá bankanum starfa enn níu starfsmenn sem fengu lán upp á 4,2 milljarða í gegnum eignarhaldsfélög sín.

Í skýrslu RNA er jafnframt vakin athygli á því “ ... að ítrekað var endursamið um kjör stjórnenda og starfsmanna og þá ávallt þeim til hagsbóta. Frestun á innlausn kaupréttarsamninga og framlenging lána til starfsmanna vegna hlutafjárkaupa eru dæmi um þetta.” Og vaxtakjörin voru ekkert slor. Þannig fékk Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri hjá Glitni, óverðtryggt lán, sem var á 3 prósentustigum lægri vöxtum en vextir ríkisbrefa, til að kaupa bréf í bankanum árið 2004.


Íslandsbanki hagnast verulega á miklum vaxtamun og hárri verðbólgu og sama fólk, sem keyrði gamla bankann í þrot og fær hundruðir milljóna afskrifaðar, innheimtir einstaklinga og fyrirtæki af fullum krafti. Tvískinningurinn er ótrúlegur.


Glitniskæran mikilvæg fyrir stofnfjáreigendur í Byr

Rétt er að vekja athygli stofnfjáreigenda í Byr á stefnu slitastjórnar á hendur forsvarsmanna Glitnis.  Eftirfarandi texti af mbl.is sýnir ágætlega þau öfl sem unnu að því að ginna stofnfjáreigendur í Byr til að skuldsetja sig vegna stofnfjáraukningar í Byr haustið 2007:

"Þann 30. apríl 2007 var boðað til auka hluthafafundar hjá Glitni. Þar fór stjórn bankans, sem hafði verið skipuð einungis tveimur mánuðum áður, frá að mestu. Á fundinum voru fimm nýir einstaklingar skipaðir í stjórn Glitnis. Stjórnarmenn Glitnis voru eftir hluthafafundinn: Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður en hann var einnig varaformaður stjórnar FL-Group. Jón Sigurðsson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Pétur Guðmundarson lögmaður hjá Logos, Björn Sveinsson, forstjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis."

  • Jón Sigurðsson er sonur endurskoðanda Byrs, Sigurðar Jónssonar hjá KPMG.
  • Þorsteinn Jónsson (Steini í Kók) var meðal stærri stofnfjáreigenda í Byr, í gegnum félag sitt, Sólstafi
  • Pétur Guðmundarson var fundarstjóri á stofnfjáreigendafundum Byrs og átti m.a. sinn þátt í að hleypa ólöglegum atkvæðum Karenar Millen inn á stofnfjáreigendafund Byrs 13. maí 2009
  • Björn Ingi Sveinsson, forstjóri Saxbygg var fulltrúi Jóns Þorsteins Jónssonar og er f.v. sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar.
  • Haukur Guðjónsson var forstjóri B&L og Ingvars Helgasonar, sem var stjórnað af Sund (Jón Kristjánsson, Páll Þór Magnússon, Birgir Ómar Haraldsson), en Sund var meðal stærstu eigenda stofnfjár í Byr.

 

Kæran:

http://glitnirbank.com/images/stories/GlitnirNYComplaintasfiled5112010.PDF


Njarðarnes

Ég hef verið spurður út í félagið Njarðarnes og tel rétt að upplýsa aðeins frekar um það.  Ítarlegri pistill fylgir vonandi, þegar tími gefst til.

Félagið er tilgreint 100% dótturfélag í ársreikningi Byrs (http://byr.is/upload/files/forsida/arsreikningur_31_12_2008_byr.pdf), skoðið bls. 34.
Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir 2008 (dagsetning aðalfundar 17.2.2009) voru stjórnarmenn:
120357-7949: Eiður Gunnlaugsson
160166-5769: Jón Björnsson
240969-3439: Jón Þorsteinn Jónsson
Framkvæmdastjóri:
170648-3079: Jón Kristinn Sólnes
Endurskoðendur/skoðunarmenn:
110959-5919: Arnar Eyfjörð Árnason
Reikningurinn, sem er staðfestur af stjórn með undirritun hennar, sýnir neikvæða afkomu upp á tæpar 9 milljónir. Rekstarafkoma án afskrifta og fjármagnsliða er neikvæð upp á um 16,4 milljónir.  Fastafjármunir eru einungis ein bifreið að verðmæti 4.081.150, skv. ársreikningi.
   
Ástæða þess að ég byrjaði að skoða félagið er tvíþætt:  Annarsvegar er ársreikningurinn fyrir Byr 2008 varðandi félagið augljóslega rangur (skoðið tekjurnar og berið saman við eignirnar skv. ársreikningi Njarðarness).  Hinsvegar tengdist félagið Jóni Kr Sólnes og Jóni Þorsteini Jónssyni og ég var sl. sumar farinn að fá tilfinningu fyrir því að mjög margt í tengslum við þá gæti verið málum blandið (reynslan af Exeter Holdings var bitur). 
Það sem mér blöskraði algjörlega við Njarðarnes (líkt og mér blöskraði að sjá viðtalið við Sigrúnu Björk) var óskammfeilnin í Jóni Kr Sólnes; að þiggja 300 þús/mánuð fyrir að sinna starfi stjórnarformanns Byrs (sem var engin ofrausn í raun, því hann fékk alveg að vinna fyrir kaupinu sínu þar) og vera á sama tíma á verulega háum launum og bíl hjá dótturfélagi sparisjóðsins, með mjög vafasamar starfsskyldur.  Skýringar Jóns Kr Sólness voru afar ósannfærandi og sagði hann sig að lokum frá starfinu, nokkrum dögum eftir húsleit sérstaks saksóknara.
Á stofnfjáreigendafundi Byrs 15.1.2010 fjallaði ég um stjórnarhætti í Byr sparisjóði og nefndi þar m.a. athæfi Jóns Kr Sólness sem dæmi um stjórnunarhætti sem mörkuðust frekar af umhyggju fyrir eigin velferð en þess fyrirtækis sem hann var kjörinn til að starfa fyrir.  Slíkir stjórnunarhættir eru grunnurinn að stöðu sparisjóðakerfisins eins og hún er í dag.

Hvað gekk á í aðdraganda stofnfjáraukningar?

Því miður hefur Rannsóknarnefnd um sparisjóðina ekki enn verið skipuð og því of snemmt að segja til um allt það sem á gekk í aðdraganda stofnfjáraukningar Byrs. Til upprifjunar, snerist stofnfjáraukning Byrs um ca 30 milljarða inngreiðslu stofnfjáreigenda í Byr til sparisjóðsins á haustmánuðum 2007 (3 milljarðar í september, 24 miljarðar frá stofnfjáreigendum Byrs í des 2007 og svo 3 milljarðar frá stofnfjáreigendum SPNOR um áramót).  Algengur misskilningur virðist enn vera að almennir stofnfjáreigendur hafi grætt á stofnfjáraukningunni, vegna hárra arðgreiðslna árið eftir.

 

Rétt er að skoða stóru myndina í þessu samhengi og tímaröð atburða. Meðal þess sem hafði gerst og var í farvatninu á þessum tíma var:

 

  • Gnúpur var kominn á hausinn. Þórður Már, sonur Herdísar Þórðardóttur (systur Ingu Jónu, konu Geirs Haarde) var búinn að sigla Gnúpi algjörlega í strand. Peningamarkaðssjóður Kaupþings tók á sig lækkun. Þeir best tengdu vissu í hvað stefndi. Það var kominn tími til að losa sig við eignir - "cash out". Áhrifin af falli Gnúps voru falin eins vandlega og hægt var, annarsvegar með yfirtöku Fons á FL-bréfum félagsins (hér þarf vart að ræða tengingar á milli helstu leikenda) og hinsvegar með yfirtöku Giftar (í eigu ca 50.000 Íslendinga) á Kaupþingsbréfum Gnúps. Tengingar hvað þann viðburð eru nokkuð minna þekktar, en Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga hefur lengi staðið stærstu eigendum Kaupþings nærri, m.a. í gegnum VÍS. Jafnframt er áhugavert að Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga er góður vinur Jóns Björnssonar, en þeir eru skólafélagar úr Viðskiptafræði í Háskólanum (reyndar er Bjarni Ármannsson líka í kunningjahópnum, en það er önnur saga). 
  • Lánamarkaðir voru nánast alveg lokaðir. Veðköll frá erlendum bönkum voru ekki óalgeng og bréf FL-Group og viðlíka félaga farin að gefa verulega eftir, þrátt fyrir tilraunir til að halda þeim uppi. 
  • Sameining Sparisjóðs Kópavogs við Byr hafði farið fram. Betur verður vikið að henni síðar.
  • Sameining SPNOR og Byrs stóð fyrir dyrum. Mótstaða við sameininguna var veruleg fyrir Norðan, ekki hvað síst vegna stofnfjáraukningarinnar.  Talsvert var gert til að brjóta niður þá mótstöðu. Stjórn SPNOR, undir forystu Jóns Kr Sólness, sendi m.a. stofnfjáreigendum í SPNOR bréf til þess að fullvissa þá um að einungis bréf þeirra í SPNOR væru að veði fyrir þeim lánum sem fengust frá Glitni. Jón Kr Sólnes gegndi stöðu framkvæmdastjóra Njarðarness allt árið 2008 (og reyndar fram í desember 2009).  Njarðarnes var dótturfélag SPNOR og varð dótturfélag Byrs við sameininguna.
  • Jón Björnsson varð stjórnarmaður í Glitni um tveimur mánuðum eftir stofnfjáraukningu SPNOR Greiddur var um 13,6 milljarða arður út úr rekstri Byrs á vormánuðum 2008. Langstærsti hluti þessa fjár rann til Glitnis og annarra lánastofnana, enda slíkt hluti af lánasamningum. Þeir sem lögðu eigið fé í stofnfjáraukninguna fengu arðinn greiddan, en að sjálfsögðu mun lægri upphæð en greidd var inn. 
  • Stofnfjáraukningin gerði Byr mögulegt að lána mun hærri upphæðir en áður og virðist af fréttum sem lánveitingar til mjög tengdra félaga, líkt og FL-Group, hafi farið fram. 
  • Byr eignaðist hluti í ýmsum félögum um svipað leyti og stofnfjáraukningin fór fram, t.a.m. í dótturfélagi sínu D-1 ehf, sem hélt utan um fasteign sparisjóðsins að Digranesvegi 1 í Kópavogi og Shelley Oak (Lava Capital), en samkvæmt fréttum þá eignaðist Byr meirihluta í því félagi á haustmánuðum 2007.

 

Þeir sem þekkja vel til mega gjarnan setja upplýsingar inn sem athugasemdir eða senda á sveinn.margeirsson@gmail.com 


Hveraland og Sparisjóður Keflavíkur

Í dag var fréttatilkynning Jóns Björnssonar birt á Eyjunni.  Meðal þeirra athugasemda sem gerðar voru við fréttina er sá texti sem lesa má hér að neðan.  Ekki skal sagt til um það hvort allt sem kemur fram í textanum er rétt, en þó er víst að eftirfarandi er rétt:

"Sigrún [Björk Jakobsdóttir] er systir Ásdísar Ýr Jakobsdóttur, sem er forstöðumaður lánasviðs Sparisjóðs Keflavíkur". 

http://www.spkef.is/Upplysingar/Starfsfolk/24/Asdis-Yr-Jakobsdottir/default.aspx

 

Í ljósi þessa er áhugavert að skoða t.a.m. ársreikning félagsins Hveraland ehf, en stjórnarmenn þess félags eru Ingvar Jónadab Karlsson, Guðmundur A Birgisson (Núpum) og Jón Kr Sólnes.  Ingvar Karlsson og Guðmundur A Birgisson eru báðir stórir eigendur að Lífsvali, en Jón Björnsson er, eins og margoft hefur komið fram, framkvæmdastjóri þess félags.  Jón Björnsson var svo, eins og fram hefur komið, stjórnarmaður í Njarðarnesi ehf, dótturfélagi Byrs, ásamt Eið Gunnlaugssyni og Jóni Þorsteini Jónssyni.  Jón Kr Sólnes var framkvæmdastjóri Njarðarness.  Þessir menn eru viðskiptafélagar.

Samkvæmt ársreikningi Hveralands fyrir 2008 skuldar félagið Sparisjóði Keflavíkur 338 milljónir. Lánið er þó þeim þægilega eiginleika gætt að ekki þarf að borga af því, þar sem næsta árs afborganir eru einungis um 200 þúsund (kúlulán að því er virðist).  Helstu eignir félagsins eru sagðar vera hlutabréf að virði 300 milljónir (upp á krónu), sem er jafnhá upphæð og á árinu 2007.

Það er spurning hvort einhver skuldi stofnfjáreigendum í Sparisjóði Keflavíkur afsökunarbeiðni?   

 

TEXTI SEM BIRTUR VAR Í ATHUGASEMD Á EYJUNNI:

http://eyjan.is/blog/2010/05/04/faerdi-allar-eignir-yfir-a-konu-sina-med-kaupmala-segir-malid-allt-edlilegt/ 

Jón Björnsson er forstjóri Lífsvals: sjá greinar á netinu
Lífsval ehf er einkahlutafélög, sem er í eigu fjársterkra íslenskra aðila og hefur verið að kaupa bújarðir út um allt land og einnig bæði mjólkur- og kjötkvóta. Starfsemi félagsins og markmið hafa ekki farið hátt í umræðunni manna á meðal, né virðast áhyggjur ráðamanna vera miklar varðandi vöxt þess og viðgang. Félagið og skyldir aðilar hafa keypt á annað hundrað bújarðir, að því er talið er einkum bújarðir, sem fylgja góð hlunnindi t.d. veiði- og vatnsréttindi auk jarða með framleiðslurétt í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Við jarðakaup eru jarðir oft á tíðum sameinaðar svo og greiðslumark, en aðrar leigðar þeim, sem þar bjuggu fyrir sölu. Fjöldinn allur af þessum bújörðum hefur af þessum orsökum farið í eyði og húsakostur grotnar þar niður, sveitungum og öðrum, sem unna landinu, til mikillar armæðu. Þá leiddu þessi stórfelldu jarðakaup Lífsvals ehf til þess, að verð á bújörðum snarhækkaði á skömmum tíma, sérstaklega verðið á góðum jörðum.

Ágúst Sindri Karlsson

Að Lífsvali ehf standa fjársterkir aðilar úr íslensku viðskiptalífi eins og áður sagði m.a. Ingvar J. Karlsson, læknir og forstjóri fyrirtækisins Karl K. Karlssonar hf., Guðmundur A. Birgissonar á Núpum í Ölfusi, Ólafur I. Wernersson, tæknifræðingur, Gunnar Þorláksson, oftast kenndur við byggingarfyrirtækið Gunnar og Gylfi hf, Árni Maríasson, forstöðumaður lánasviðs MP-banka hf áður forstöðumaður gjaldeyris- og afleiðumiðlunar Búnaðarbankans hf síðan Kaupþings hf, Jón Þorsteinn Jónsson, kenndur við Nóatún verslanirnar og fyrrv. formaður stjórnar í BYR sparisjóðsbanka ( BYR ), Ágúst Sindri Karlsson, hæstaréttarlögmaður, kenndur við lögfræðiskrifstofuna Lögmenn.is í Kópavogi og eigandi Exeter Holdings og fyrrv. stjórnarmaður í MP-banka hf og síðan en ekki hvað síst Jón Björnsson framkv. stj. Lífsvals hf, áður sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga ( SPNOR ) og fyrrv. stjórnarmaður í Glitni hf.

Eftir því, sem næst verður komið, rekur Lífsval ehf í dag fjölda stórra kúabúa víðs vegar um landið, hvert þeirra með um og yfir 400 þúsund lítra mjólkurkvóta. Talið er félagið eigi nú yfir 40% af öllum mjólkurkvóta í landinu auk verulegs kjötkvóta. Hefur þetta leitt til þess, að framboð á mjólkurkvóta og kjötkvóta er nú óverulegt, og það því illmögulegt fyrir venjulegan bónda að stækka bú sitt og hagræða í rekstrinum. En Lífsval hf kaupir nær allan kvóta, sem á markað kemur, og yfirbýður oftar en ekki ásett verð. Gerir verðtilboð, sem er venjulegum íslenskum bónda ofviða að greiða. En peningana virðist ekki hafa skort hjá Lífsvali ehf hingað til. Félagið virðist hafa haft nær ótakmarkaður aðgangur að fjármagni til kaupa á bújörðum og kvóta. Að minnsta kosti var það þannig fyrir bankahrun.

En hvaða áhrif hefur þessi samþjöppun eignarhalds á bújörðum á búskaparskilyrði og byggð í landinu? Áhrifin eru greinilega mikil og margvísleg. Flest, ef ekki öll, neikvæð. Byggð hefur lagst í eyði á ýmsum landssvæðum, húsakostur grottnað niður og hefðbundinn bóndi getur ekki lengur stækkað og hagrætt í búrekstri sínum vegna skorts á kvóta og vegna hárra verða á honum. Þá er það ógjörningur fyrir venjulegan Íslending að kaupa bújörð í dag og hefja búskap af sömu ástæðum. Mikil fjölgun hefur einnig orðið í stétt leiguliða á bújörðum og hljóta að fylgja því ýmsir ókostir fyrir bændastéttina í landinu. Og margt fleira mætti tína til í þessu samhengi.

Það hefur vakið sérstaka athygli manna á meðal, að forsvarsmenn Lífsvals ehf hafa neitað að tjá sig um félagið eða gefa upplýsingar um starfsemi þess og rekstur. Algjör þögn og leynd hvílir yfir öllu, sem það varðar. Hafa þeir Ingvar J. Karlsson, stjórnarformaður þess, og Jón Björnsson, framkvæmdastjóri þess, ítrekað neitað að ræða um málefni félagsins við blaðamenn, þegar eftir því hefur verið leitað. Við hvað eru þessir menn hræddir? Og hvað hafa þeir að fela?

Þegar grannt er skoðað virðast hafa verið mikil tengsl fyrir hrun á milli eigenda Lífsvals ehf og BYRS svo og Glitni banka hf. Einnig Kaupþings hf.

Áleitnar spurningar leita á hugann, þegar Lífsvel ehf er annars vegar. Spurningar eins og, hver sé staðan hjá fyrirtækinu nú eftir bankahrunið og hvað mikið félagið og tengdir aðilar skuldi vegna bújarðakaupanna? Hjá hvaða fjármálafyrirtækjum liggja skuldir þessara aðila? Tel ég hér vera ærið og áhugaverð rannsóknarverkefni og nauðsynlegt að upplýsa það.

Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarmaður í Lífsvali hf, var til skamms tíma formaður stjórnar í BYR. Sá hinn sami og misnotaði aðstöðu sína innan bankans og lét bankann lána Exeter Holdings hf um 1100 milljónir króna til kaupa á stofnfjárhlutum sínum í bankanum á yfirverði. En peningarnir gengu til MP-banka hf til uppgjörs á skuldum hans þar. Sá hinn sami og fékk lán hjá Glitni banka hf og skráði ólögráða börn sín fyrir stofnfjárhlutum í BYR. Allt gert til að tryggja völd og áhrif innan BYRS. Nú á að afskrifa þessi lán til barna Jóns Þorsteins, þar sem yfirlögráðandi hafi ekki gefið samþykki sitt fyrir lántökunum. Almenningur á Íslandi borgar brúsann. Ekki verður séð, að það sé ætlun Íslandsbanka hf, áður Glitnir banki hf að innheima lánin hjá Jóni Þorsteini, þrátt fyrir að skaðabótaábyrgð hans ætti að vera fyrir hendi vegna fjártjónsins. Þá skal tekið fram, að Jón Þorsteinn var stór hluthafi í Glitni banka hf ásamt fjölskyldu sinni ( Nóatúnsfjölskyldan ) í gegnum hlutafélögin Saxhól og Saxbygg.

Birna Einarsdóttir bankastj. Íslandsbanka hf.

Birna Einarsdóttir, bankastóri Íslandsbanka hf, var í framkvæmdastjórn Glitnis banka hf, þegar lánin til barnanna voru veitt. Furðu sætir, að hún skuli ekki látin sæta ábyrgð og taka pokann sinn. Og þótt fyrr hefði verið. En um 180 milljóna króna skuld hennar að nafnvirði, núvirði yfir 400 milljónir, við Glitni banka hf var þurrkuð þar út með klækjum til að tryggja stöðu hennar innan bankans og sem síðar tryggði henni bankastjórastólinn hjá Íslandsbanka hf. En hún hefði orðið gjaldþrota, ef þetta hefði ekki verið gert og því ekki getað talist hæf lengur sem bankastjórnandi. Greinilega góð sambönd hjá henni við þá huldumenn innan kerfisins, sem sáu um þetta. Þá lék Birna eitt af lykilhlutverkunum, þegar Glitnir banki hf lánaði gífurlega fjármundi til stofnarfjáreigenda í BYR á árinu 2007 m.a, þegar samruninn við SPNOR átti sér stað, en Birna átti sæti í framkvæmdastjórn Glitnis banka hf á þeim tíma. Lán þessi voru að miklu leiti tryggð með væntanlegum arðgreiðslum og svo í stofnfjárbréfunum sjálfum. Ljóst er hverjum, sem vita vill, að fyrirfram hafi það verið ákveðið af stjórendum í BYR og Glitni banka hf, þegar lán þessi voru planlögð og veitt, að gífurlegar arðgreiðslum yrðu samþykktar á árinu 2008 vegna ársins 2007 til að tryggja endurgreiðslu lánanna, þrátt fyrir að fyrir lægi óheyrilegur taprekstur í BYR fyrir árin 2007 og 2008. Enginn einstaklingur hefur verið látinn sæta ábyrgð vegna þessara lögbrota. Hins vegar tók Fjármálaeftirlitið þannig á hlutabréfakaupamáli Birnu bankastýru eftir “rannsókn”, að sekta Glitni banka hf um óverulega fjárhæð, en hvítþvo Birnu. Gaf henni syndaaflausn og lýsti hlutabréfakaupin ógild. Ótrúlegt en satt.

Inn í þessi spillingarmál BYRS blandast annar stjórnarmaður í Lífvali hf, Ágúst Sindri Karlsson, hæstaréttarlögmaður með meiru. En hann er talinn vera aðal eigandi Exeter Holdings hf. Ágúst Sindri var var á þessum tíma stjórnarmaður í MP-banka hf og tengdist honum á margan hátt m.a. með eignatengslum svo og vinatengslum við Margeir Pétursson, forstjóra bankans.

Ágúst Sindri lék lykilhlutverkið í því sjónarspili að bjarga Jóni Þorsteini Jónssyni og MP-banka hf frá stórfelldu fjártjóni vegna hruns á gengi stofnfjárbréfa í Byr sparisjóðsbanka og koma málum þannig fyrir, að skellurinn lenti að öllu leiti á BYR. Enda þarf BYR núna að afskrifa milljarða hjá Exeter Holdings hf vegna þessara mála, þar sem einu veðin, sem BYR fékk fyrir lánunum voru stofnfjárbréfin sjálf. En tekið skal fram, að MP-banki hafði lánað völdum eigendum stofnfjárbréfa í BYR gífurlegar fjárhæðir til slíkra kaupa í miklu valdatafli innan bankans. Þannig var séð til þess, að MP banki hf fékk allt sitt greitt og Jón Þorsteinn og fleiri stjórnendur í BYR slyppu fyrir horn, en fjöldinn allur af öðrum stofnfjáreigendum sæti eftir með sárt ennið.

MP-banki hf hefur spilað ótrúlega rullu í þessum fjárglæfrum svo og Glitnir banki hf. Ríkisbankinn, Íslandsbanki hf, tekur núna þátt í svínaríinu. Mikið hefur verið gert í því í fjölmiðlum í nokkurn tíma að keppst við að dásama MP-banka hf fyrir traust og trúverðugleika. En ljóst er, þegar kafað er ofan í saumana á ýmsum málum þar, að víða er pottur brotinn í þeim efnum. Sérstaklega málum sem tengst BYR og aðilum þar tengdum svo og vegna fjárfestinga í Úkraníu og víðar. Það síðasta í afrekaskrá MP-banka er að fá til liðs við sig norskan auðmann, sem er nú í lögreglurannsókn í Noregi vegna spillingarmála tengdum olíufyrirtækinu DNO og viðskiptum þess í Kúrdahéruðum Íraks. Fjármálaeftirlitið þarf að koma að málefnum MP-banka hf og rannsaka spillingarmálin, sem þar eru falin. Þau þurfa að koma upp á yfirborðið.

Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífvals ehf var um árabil sparisjóðsstjóri hjá SPNOR. En hann hætti þar árið 2005 og réð sig þá til Lífvals ehf sem framkvæmdastjóri þess. Þá sat hann í stjórn Glitnis banka hf, þegar SPNOR sameinaðist BYR árið 2007 og lék þar eitt lykilhlutverkið m.a. í því að lokka stofnfjáreignendur SPNOR til að samþykkja inngönguna með gilliboðum um lánafyrirgreiðslu frá Glitni banka hf. Eiginkona hans, Sigrún Jakobsdóttir, bæjarstýra á Akureyri, lagði afl sitt á vogarskál fyrir samþykki bæjarstjórnar Akureyrar á samrunanum. Margir stofnfjáreigendur, sem komu inn í BYR í gegnum SPNOR eiga nú um verulega sárt að binda vegna skuldanna við Glitni banka hf. En kröfur þessar teljast nú til eigna Íslandsbanka hf. Sigrún er systir Ásdísar Ýr Jakobsdóttur, sem er forstöðumaður lánasviðs Sparisjóðs Keflavíkur og situr þar í stjórn sem varamaður.

Að öllu því virtu, sem að ofan segir, er ljóst að eigendur Lífsvals ehf hafa haft greiðann aðgang að lánsfé í fjármálastofnunum landsins. Spurningin er, hvað mikið af uppkaupum Lífsvals ehf á bújörðum landsins hefur verið fjármagnaður með lánsfé og hvað mikill hluti af þeim lánum þarf nú almenningur á Íslandi að borga og blæða fyrir? Hjá hvaða fjármálastofnunum liggja skuldir Lífsvals ehf? Er hér með skorað á þá, sem það þekkja, að veita þær upplýsingar. Er Lífsval ehf solvent eða með öðrum orðum gjaldfært félag? Fróðlegt að vita.

Er það ástæðan fyrir þessum gerningi ?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband