Leita í fréttum mbl.is

Exeter Holdings - hverjir tóku þátt?

Þá hafa ákærur vegna viðskipta Exeter Holdings loksins litið dagsins ljós. Í tilefni af því er ástæða til að rifja málið aðeins upp. Exeter Holdings keypti haustið 2008, eftir bankahrun, stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Bréfin voru keypt fyrir lánsfé frá Byr, einungis gegn veði í stofnfjárbréfunum. Um var að ræða fáránlegt yfirverð, enda fóru viðskiptin fram á hærra gengi en áður hafði sést, að teknu tilliti til arðgreiðslna. "Viðskiptin" fóru fram strax eftir bankahrun (um 7. október 2008) fyrir utan sölu Birgis Ómars Haraldssonar.

Þeir sem seldu stofnfé voru:

1. Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byrs (um 54 milljón hluti að nafnverði)

2. Birgir Ómar Haraldsson, stjórnarmaður Byrs (um 64 milljón hluti að nafnverði, seldir í desember 2008)

3. MP Banki (um 120 milljón hluti að nafnverði)

4. G.Arnason ehf/Mardrangar ehf (um 27 milljón hluti að nafnverði). Eigandi: Gunnar Árnason, fyrrverandi yfirmaður áhættustýringar Byrs

5. Húnahorn ehf (um 21 milljón hluti að nafnverði)

6. Auður Arna Eiríksdóttir, lykilstjórnandi í Byr (um 21 milljón hluti að nafnverði)

Í þessum pistli er fjallað um þrjá af helstu þátttakendum í málinu, Jón Þorstein Jónsson, Ágúst Sindra Karlsson og Birgi Ómar Haraldsson: http://www.verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/entry/967014/

Ýmislegt athyglisvert hefur verið sagt um málið í fjölmiðlum, m.a. sagðist Ragnar Z. Guðjónsson ekki skilja afhverju málið væri til rannsóknar: http://www.verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/entry/897417/

Jón Þorsteinn Jónsson gaf út yfirlýsingu vegna málsins, sem að líkindum var ekki alveg sannleikanum samkvæmt: http://www.verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/entry/851031/

Hið sama gerði Margeir Pétursson fyrir hönd MP Banka,: http://www.verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/entry/849499/

Yfirlýsingar Margeirs reyndust hinsvegar stangast verulega á við yfirlýsingar Styrmis Þórs: http://www.verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/entry/856455/

Það hefur verið gríðarleg vinna tengd Exeter Holdings málinu fyrir okkur. Það er vonandi að málið geti orðið ein varðan í raunverulegri endurreisn Íslands. Málinu er ekki lokið, en það sem hefur tekist nú þegar sýnir að venjulegt fólk getur raunverulega haft áhrif á það hvort réttlæti næst fram á Íslandi eða ekki.

Sveinn og Rakel.


mbl.is Þrír ákærðir í Exeter-málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend lán Byrs

Allnokkrir stofnfjáreigendur hafa velt fyrir sér áhrifum dóms hæstaréttar á lánamál sín.  Eins og vel er þekkt, skulda stofnfjáreigendur í Byr margir hverjir "gengistryggð" lán, m.a. vegna stofnfjárkaupa.  Dómur Hæstaréttar kemur því að sjálfsögðu þeim við, burtséð frá þeirri sjálfsögðu kröfu að stofnfjáraukningin í heild sinni verði ógilt, enda í raun nokkuð augljóslega um eitt púslið að ræða í samsæri stærstu eigenda Glitnis og Byrs, til að ná fé af almenningi.

En ýmsir stofnfjáreigendur tóku jafnframt gengistryggð lán hjá Byr, m.a. vegna húsnæðiskaupa.  Verulegrar óánægju gætir á meðal þeirra sem hafa komið að máli við okkur með útsendingu greiðsluseðla miðað við óbreytt ástand, þ.e. án tillits til dómsins.  Samtök lánþega hafa meðal annars sagt frá þessu. 

 Fólk er að sjálfsögðu hvatt til að gæta að rétti sínum í þessum efnum, enda ljóst að um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir marga stofnfjáreigendur, sem voru jú flestir hverjir dyggir viðskiptavinir Byrs og tóku því lán sín þar. 

Umfjöllun Samtaka lánþega, þar sem vísað er í yfirlýsingu Byrs: http://gandri.com/?p=1064


Exeter Holdings málið lengst komið

Vísir greinir frá því í dag að mál Baldurs Guðlaugssonar og Exeter Holdings málið svokallaða séu þau mál sem lengst eru komin hvað rannsókn varðar. Nánar má lesa um þetta hér: http://www.visir.is/article/2010573942321

Til upprifjunar á því hvað Exeter Holdings málið snýst um, þá er þar um að ræða sýndarviðskipti fyrrverandi stjórnarmanna og stjórnenda í Byr sparisjóði við Exeter Holdings, sem var félag í eigu Ágústar Sindra Karlssonar. Ágúst Sindri er náinn samstarfsmaður Margeirs Péturssonar og einn hluthafa í MP Banka. Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP Banka er jafnframt viðriðinn málið.

Vakin var athygli á málinu í Kastljós þætti sjónvarps 7.4.2009, eftir margar árangurslausar tilraunar okkar hjóna til að ná sambandi við Fjármálaeftirlitið. Í kjölfarið fylgdu fundahöld um málið á opinberum vettvangi, kæra til sérstaks saksóknara og myndun raunverulegrar grasrótarhreyfingar á meðal stofnfjáreigenda Byrs sparisjóðs.

Grasrótarhreyfingin bauð fram svokallaðan A-lista til stjórnarkjörs fyrir aðalfund Byrs þann 13.5.2009. B-listinn, sem leiddur var af Jóni Kr Sólnes bar hinsvegar sigur úr býtum, m.a. með hjálp ólöglegra atkvæða á aðalfundinum, en atkvæði Karenar Millen, sem óheimilt var að beita á fundinum tryggðu sigurinn. Á meðal stuðningsmanna B-listans voru Jón Þorsteinn Jónsson, Ágúst Ármann, Magnús Ármann, Þorsteinn M. Jónsson og Hannes Smárason. Jón Kr Sólnes varð síðar uppvís að því að þiggja háar launagreiðslur hjá dótturfélagi Byrs, Njarðarnesi - fyrir litla vinnu.

Í kjölfar húsleitar í Byr í lok nóvember 2009 hurfu Ragnar Z. Guðjónsson og Jón Kr Sólnes úr stjórnunarstörfum hjá Byr sparisjóði. Við starfi Ragnars sem sparisjóðsstjóri tók Jón Finnbogason og við stjórnarformennsku tók Guðmundur Geir Gunnarsson. Því miður reyndist hinsvegar staða sjóðsins svo slæm þegar þá var komið, að ekki reyndist unnt að bjarga honum, þrátt fyrir miklar tilraunir í þá veru.

Samkvæmt sex mánaða uppgjöri Byrs fyrir 2008 var eigið fé sparisjóðsins 30.6.2008 um 47 milljarðar. Samkvæmt ársuppgjöri Byrs fyrir 2008 (birt í mars 2009) var eigið fé þá um 16 milljarðar og CAD hlutfall um 8.3%. Ýmsar efasemdaraddir komu þá fram um að uppgjörið væri á rökum reist, enda þótti CAD hlutfall vera grunsamlega nærri hinu lögbundna lágmarki (8%). Staðan reyndist enda mun verri og því fór sem fór. Það hlýtur að teljast áleitin spurning hvort mögulegt sé fyrir stofnfjáreigendur að sækja bætur fyrir þann skaða sem hlaust af óstjórn fyrirtækisins frá því að um 30 milljarða stofnfjáraukning fór fram í lok árs 2007.


Áhrif dóms hæstaréttar

Nýfallinn dómur hæstaréttar kann að hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir skuldsetta stofnfjáreigendur í Byr, jafnt vegna stofnfjárlána sem og annarra "erlendra" lána.  Stofnfjáreigendur eru hvattir til að lesa dómsniðurstöðuna og marka sér stefnu með næstu skref, enda ljóst að gróflega hefur verið brotið á rétti neytenda.  Ástæðulaust er að láta slíkt yfir sig ganga.

Dómsorðið er að finna hér:

http://haestirettur.is/domar?nr=6715
http://haestirettur.is/domar?nr=6714
http://haestirettur.is/domar?nr=6719

 

Efsti hlekkurinn á við um SP-Fjármögnun og viðskiptamann þess félags.  SP-Fjármögnun var m.a. í eigu Byrs.  Í dómnum sést tenging félagsins við Byr glögglega, en þar kemur m.a. fram:

"Landsbanki Íslands hafi í maí 2007 átt 51% í félaginu og ýmsir sparisjóðir áttu 49%.  Í dag eigi Nýi Landsbanki Íslands [NBI hf.] félagið.

Í maí 2007 sagði Kjartan, að Þorgeir Baldursson hafi verið stjórnarformaður félagsins.  Fyrir hönd Landsbankans hefðu setið í stjórn Elín Sigfúsdóttir og Guðmundur Davíðsson.  Þá hafi Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri í Byr, og Magnús Ægir Magnússon setið í stjórn.  Í dag sitji í stjórn Anna Bjarney Sigurðardóttir, stjórnarformaður frá NBI hf., Ari Wendel, einnig frá bankanum, Jón Þorsteinn Oddleifsson, Ragnar Z. Guðjónsson og Angantýr Valur Jónasson."

 

Samkvæmt fréttum eru skaðabótamál á hendur stjórn SP-Fjármögnunar til skoðunar.


Stapi lífeyrissjóður með 10 milljarða kröfu í Glitni

Stapi lífeyrissjóður kemst á lista yfir 50 stærstu kröfuhafa í Glitni, sem birtur hefur verið á vef alþingis (http://www.althingi.is/altext/138/s/pdf/1328.pdf).  Stapi er eini lífeyrissjóður landsins sem kemst á þennan lista.

Þar með skýtur Stapi öðrum lífeyrissjóðum ref fyrir rass er kemur að kröfum á hendur Glitni, þrátt fyrir að Stapi sé einungis fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins, með um 95 milljarða eignir í árslok 2008 (LSR var þá stærsti sjóðurinn með um 286 milljarða eignir, skv. Landssamtökum Lífeyrissjóða; http://ll.is/?i=7).   

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni var Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður stjórnar Stapa.  Eiginmaður hennar, Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals og f.v. sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga, var varamaður í stjórn Íslandsbanka þegar bankinn féll. 

Á meðal stórra eigenda í Glitni var fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, í gegnum Saxbygg, en það var að helmingseigu Saxhóls - sem Jón Þorsteinn stýrði.  Jón Þorsteinn Jónsson tengist Lífsvali í gegnum stjórnarsetu.  Einn aðalmanna í stjórn Glitnis var forstjóri Saxbygg, Björn Ingi Sveinsson.  Björn Ingi Sveinsson er fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar.  Björn Ingi gegndi starfi sparisjóðsstjóra í SPH í um hálft ár, frá lokum október 2004 til loka apríl 2005.  Hann beitti Lárus Welding, bankastjóra Glitnis, miklum þrýstingi til að fá hátt lán til Saxbygg, einungis 10 dögum fyrir fall Glitnis (http://www.visir.is/article/20100331/VIDSKIPTI06/946189818/-1&sp=1).  Saxbygg er í dag gjaldþrota.  Í einu undirfélaga Saxbygg, Saxbygg Invest, munu 99,9% krafna tapast (http://www.ruv.is/frett/999-krafna-i-icarus-invest-tapast).

Samkvæmt ársreikningi Stapa var raunávöxtun sjóðsins neikvæð um rúm 6% á árinu 2009 (http://www.stapi.is/is/news/arsreikningur-stapa/). 

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1014206

http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=825872


Óheilbrigðir viðskiptahættir Íslandsbanka

Sigrún Davíðsdóttir hittir naglann á höfuðið í nýjum pistli hjá RÚV.  Hún segir m.a.:

"Afskriftir Íslandsbanka eru heldur ekki alveg eins og af hverju öðru gjaldþrota félagi eins og stjórnarformaðurinn heldur fram. Þetta eru eftirhreyturnar af óheilbrigðum viðskiptaháttum [feitletrun SM]. Berum afdrif þessara félaga saman við fólkið sem tók lán hjá Glitni til að taka þátt í stofnfjáraukningu í Byr, þá nátengdur Glitni. Þetta fólk fékk ekki niðurgreidda vexti og því var ekki ráðlagt að gera kaupin gegnum einkahlutafélag til að geta sloppið frá öllu ef illa færi. Og það fór illa – og engar niðurfellingar skulda í kaupbæti. "

Pistil Sigrúnar má lesa hér:

http://www.ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/kululan-i-oheilbrigdu-kerfi


Hvað fengu starfsmenn Glitnis í sinn hlut fyrir lán til stofnfjáreigenda?

Fyrirtækjasvið Glitnis sá um lánveitingar til stofnfjáreigenda í Byr.  Eftirfarandi er tekin af malefnin.com 

Fyrirtækjasviðið sprengdi alla áhættuskala

Heimildarmenn DV sem þekkja starfsemi Glitnis út og inn segja að mesta og alvarlegasta breytingin hafi verið á fyrirtækjasviði bankans, sem var sérstakt áhugasvið hins nýja forstjóra.

Þar jókst áhættusæknin til allra muna með alvarlegum afleiðingum. Glannaleg útlán á fyrirtækjasviði eru ein stærsta ástæða þess að bankinn féll að lokum. Á sviðinu unnu rúmlega 20 manns árið 2007 og þeir fengu nú aukið svigrúm til að lána án þess að bera það undir yfirmenn.

Bónusar þessarra starfsmanna námu oft um 10 % af þóknun bankans, sem var oft 3-4% af heildarútláni. Þannig gátu starfsmenn nú án nokkurs fyrirvara lánað allt að 200 milljónir til fyrirtækja og fengið í sinn snúð 5-700 þúsund krónur fyrir einn slíkan samning. Safnast þegar saman kemur og heimildir DV herma að nokkrir starfsmenn hafi allt að tífaldað laun sín með bónusgreiðslum þegar best lét.

Þessi innbyggða áhættusækni var svo eitt af því sem varð bankanum að falli. Starfsmenn græddu á því að lána sem mest, alveg sama hvort lántakandinn gat greitt lánin eður ei. Um þessa innbyggðu áhættusækni í bankakerfi alls heimsins hefur mikið verið rætt og ritað og eru sérfræðingar sammála um að hún sé lykilþáttur í þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi um allan heim.

Íslensku bankarnir létu sitt ekki eftir liggja í þessu, eins og hefur mátt sjá í tekjuuppgjörum síðustu ára hérlendis, þar sem tugir bankamanna hafa margfaldað laun sín með veglegum bónusgreiðslum.

 

http://www.malefnin.com/ib/index.php?s=1b51e687eb006fc0403087ef71a4d2d2&showtopic=122493&pid=1582243&start=0&#entry1582243


Ný stjórn SSB

Á fundi Samtaka stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði (SSB) í gær tók ný stjórn við taumunum. Hana skipa þau Guðjón Jónsson, Halldór Jónsson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Sveinn Margeirsson, Vilhjálmur Bjarnason og Þórður Magnússon.

 

http://www.vb.is/frett/1/60148/vilhjalmur-bjarnason-sest-i-stjorn-ssb


Birna Einarsdóttir á bandi stofnfjáreigenda?

Allnokkrar umræður urðu um mögulega höfðun skaðabótamáls stofnfjáreigenda á hendur Byr og/eða stjórn og stjórnendum Byrs, vegna þess að með ólöglegum hætti hafi verið staðið að stofnfjáraukningu Byrs 2007. Ljóst er að þessi mál verða skoðuð rækilega á næstu vikum og mánuðum.

Í þessu sambandi er rétt að benda á orð Birnu Einarsdóttur, frá því að barnalán Glitnis voru hvað mest til umræðu, en þá gagnrýndi Birna Byr fyrir framkvæmd útboðsins.

"Íslandsbanki kallar lántökur Glitnis mistök og hefur lýst því yfir að lánin verði ekki innheimt þar sem ekki hafi verið rétt að málum staðið. Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka segir að þó ábyrgð foreldra og Glitnis sé mikil í þessu máli gagnrýnir hún einnig hvernig Byr stóð að framkvæmd útboðsins."

http://www.visir.is/article/20091031/VIDSKIPTI06/319245624/1098


Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, ber af sér verkefnisstjórn

Á fundi SSB áðan kom fram í máli mínu að Birna Einarsdóttir hefði verið verkefnisstjóri yfir lánveitingum Glitnis til stofnfjáreigenda Byrs í árslok 2007. Mínar heimildir fyrir þessu komu frá starfsmönnum Glitnis, nú Íslandsbanka, eins og fram kom í máli mínu.

Birna Einarsdóttir hafði samband við mig nú rétt í þessu. Í símtali upp á rétt rúmar 10 mínútur bar Birna af sér að hafa verið verkefnisstjóri í lánveitingunum og er því hér með komið á framfæri. Hafi heimildir mínar verið rangar þykir mér það miður og biðst ég að sjálfsögðu velvirðingar á því.

Ýmislegt varðandi lánveitingar Glitnis til stofnfjáreigenda bar á góma í símtali okkar og varð niðurstaðan að Birna bauð mér á fund í næstu viku. Vafalaust mun sanngirni lánveitinga Glitnis verða meðal umræðuefna á þeim fundi.

Nýkjörin stjórn SSB mun koma saman á næstu dögum og munu samskipti við Glitni væntanlega verða rædd á þeim fundi, ásamt öðrum hagsmunamálum stofnfjáreigenda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband