Leita í fréttum mbl.is

Fundur á Akureyri

Norðlendingar hafa sett sig í samband við okkur í kjölfar fundarins á Grand Hótel og sýnt mikinn áhuga á að haldinn verði  fundur um sama efni Norðan heiða. 

Það er okkur bæði ljúft og skylt að kynna málið á Norðurlandi.  Því hefur verið ákveðið að halda fund um málið á Akureyri þriðjudaginn eftir páska, 14.apríl, kl. 20.

Fundarstaður verður auglýstur síðar.  Á fundinum munum við fjalla um vafasöm viðskipti stjórnarmannanna Jóns Þorsteins Jónssonar og Birgis Ómars Haraldssonar með stofnfjárhluti í Byr sparisjóði.  Hlutur MP-Banka og Exeter Holding í þessum viðskiptum verður skýrður eins hann og kemur okkur fyrir sjónir. 

Önnur sérstök viðskipti stjórnarmanna í Byr sparisjóði, með stofnfé í sjóðnum, verða einnig til umfjöllunar.  Ekki er annað að sjá af opinberum gögnum en að samtals 50 milljón hlutir Jóns Kristjánssonar og Páls Þórs Magnússonar hafi verið færðir yfir á einkahlutafélagið IceCapital ehf, frá hruni bankakerfisins fram til áramóta 2008-2009.  Jón Kristjánsson er núverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs og Páll Þór Magnússon er fyrrverandi stjórnarmaður í Byr sparisjóði.  Páll Þór Magnússon er formaður stjórnar VBS fjárfestingarbanka.  Jón Kristjánsson situr í varastjórn VBS fjárfestingabanka.  Jón og Páll eru mágar.

Umfjöllun um efnið verður með svipuðu sniði og á fundinum á Grand Hóteli.  Við höfum einnig aflað nýrra gagna sl. daga og munum koma upplýsingum sem við höfum unnið úr þeim gögnum á framfæri. 

Kveðja,

Sveinn og Rakel


Margeir Pétursson hafði samband

Okkur þykir rétt að skýra frá því að Margeir Pétursson hringdi í okkur í gær, í tengslum við það að hann sendi okkur yfirlýsingu sína, sem sett var á verjumbyr.blog.is í gær.  Margeir bað okkur að setja yfirlýsinguna á verjumbyr.blog.is og skýrði sína afstöðu til málsins.
 
Sveinn og Rakel

Meira á morgun

Við höfum því miður ekki náð að koma öllu inn sem við ætluðum í dag.  Við munum vinna áfram í málinu á morgun.

Við munum svara öllum þeim sem hafa haft samband um leið og tími vinnst til.  Við þökkum hlý orð og hvatningu. 

SAMSTAÐA!

 

Sveinn og Rakel

 


Yfirlýsing

Starfsmaður Byrs færði okkur yfirlýsingu þriggja stjórnarmanna Byrs Sparisjóðs á fundinum í gær.  Viðkomandi hafði verið beðinn að láta okkur fá yfirlýsinguna.  Um er að ræða sömu yfirlýsingu og mynd er af neðar á síðunni (í næstu færslu á undan þessari).  Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Yfirlýsing

Vegna umfjöllunar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þann 7.apríl 2009 og af gefnu tilefni vilja undirritaðir stjórnarmenn Byrs sparisjóðs koma eftirfarandi á framfæri:

Þann 19. desember 2008 var haldinn stjórnarfundur í Byr sparisjóði.  Mættir voru m.a. Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður og stjórnarmennirnir Ágúst Már Ármann, Jóhanna Waagfjörð og Jón Kr. Sólnes varamaður.  Jón Kristjánsson var fjarverandi.  Á fundinum var m.a. til umfjöllunar yfirdráttarlán sem Byr sparisjóður hafði þegar veitt til handa Tæknisetur Arkea í eigu MP fjárfestingabanka hf.  Á fundinum var samþykkt að framlengja viðkomandi yfirdráttarlán til Tæknisetur Arkea í eigu MP fjárfestingabanka hf.  / Exeter Holdings um þrjá mánuði vegna óvissu á fjármálamörkuðum og auka heimildina til þess að mæta vaxtagreiðslum.

Hafi andvirði lánsfjárheimildar að hluta eða í heild verið notað til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, er slíkt í andstöðu við afgreiðslu málsins í stjórn Byrs sparisjóðs þann 19. desember 2008.

Hafi stjórnarmenn Byrs sparisjóðs átt viðskipti með stofnfjárbréf í Byr sparisjóði án þess að tilkynna um slíkt til regluvarðar sparisjóðsins, er slíkt í andstöðu við lög um verðbréfaviðskipti að því er varðar skyldur stjórnarmanna sem fruminnherja.

Þetta mál er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu og munu undirritaðir stjórnarmenn veita allar þær upplýsingar sem óskað kanna [búið var að strika yfir „a“ hér; innskot Sveinn og Rakel] að verða eftir af hálfu þess.

8.apríl 2009 

Ágúst Már Ármann

Jóhanna Waagfjörð

Jón Kr. Sólnes

 


Yfirlýsing stjórnarmanna Byrs

Starfsmaður Byrs var beðinn að koma eftirfarandi yfirlýsingu inn á fundinn í gær.  Fljótlegasta leiðin til að koma henni hingað inn var að taka mynd af yfirlýsingunni.  Sú mynd er hér að neðan.  Yfirlýsingin verður skrifuð upp eins fljótt og auðið er.

 Sveinn og Rakel

P4090028


Yfirlýsing MP-Banka

Okkur hefur borist eftirfarandi tilkynning frá MP-Banka og verið beðin um að setja hana hér inn á síðuna.  Því miður hefur ekki unnist tími til að koma yfirlýsingu stjórnarmanna Byrs, frá í gær, hér á síðuna.  Ástæðan er sú að það á eftir að koma henni á tölvutækt form.  Það verður gert eins fljótt og auðið er.

Sveinn og Rakel

Fyrir hönd MP Banka mótmæli ég því að reynt sé að draga bankann inn í deilumál sem virðist komið upp vegna lánveitingar stjórnar BYRS vegna eigin stofnfjárbréfa. Þetta var gert í viðtali við tvo stofnfjáreigendur í BYR í Kastljósi Sjónvarpsins á þriðjudagskvöld og endurtekið á opnum fundi sömu aðila í Reykjavík í gær. 

Tekið skal fram að MP Banki var með fullnægjandi tryggingar vegna lána sem veitt voru á sínum tíma til kaupa á bréfum í BYR og fengust þau lán uppgerð í kjölfar veðkalla. Þar með lauk afskiptum MP Banka af þessu máli. MP Banki getur ekki tekið ábyrgð á því með hvaða hætti veðköllum var mætt, enda hefur bankinn ekkert um það að segja.

Vegna yfirlýsingar sem birt hefur verið frá þremur stjórnarmönnum í BYR vegna þessa máls skal tekið fram að félögin Tæknisetur Arkea og Exeter Holdings eru MP Banka með öllu óviðkomandi.  Staðhæfingar meirihluta stjórnar BYRS um eignarhald MP Banka á þessum félögum eru ósannar.  MP Banki hefur ekki veitt þeim neinar ábyrgðir og hefur ekki á nokkurn hátt komið að lánaumsóknum þeirra í BYR.  Aðaleigandi félaganna sagði sig úr stjórn MP Banka sumarið 2008 þar sem hann stofnaði eigið verðbréfafyrirtæki sem tengist MP Banka á engan hátt.

Fh. MP Banka

Margeir Pétursson


Aðeins vikið að máli númer tvö

Ágætu lesendur! 

Við viljum, á þessum fallega vordegi, byrja á því að þakka öllum þeim sem mættu á fundinn á Grand Hóteli í gær.  Það var ótrúlega mikilvægt fyrir okkur hjónin að upplifa magnaða samstöðu fundargesta um að nú væri nóg komið!

Þá viljum við sérstaklega þakka Karli Garðarssyni fyrir góða fundarstjórn.  Karl brást mjög skjótt við beiðni okkar um að taka fundarstjórnina að sér og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Þær glærur sem voru sýndar á fundinum verða lagðar inn á vefinn eftir því sem tími vinnst til.  Þar sem við hjónin erum nýgræðingar í bloggheimum kunnum við ekki að leggja inn venjuleg skjöl (t.d pdf) hér á blogg-vef Morgunblaðsins.  Athugasemdir hér að neðan sem gætu aðstoðað okkur við það væru vel þegnar. 

Eins og fram kom á fundinum var það MP-Banki sem var mikilvægasti skákmaðurinn á taflborði viðskiptanna sem Exeter Holding stóð í.  MP-Banki átti sjálfur 119.244.756 af þeim rúmu 242 milljón hlutum sem Exeter Holding tók við á stjórnarfundinum í Byr þann 7.10.2008 - strax eftir hrun bankakerfisins.  Auk þeirra hluta sem MP-Banki átti sjálfur fyrir þennan tíma var framkvæmt veðkall á stjórnendur Byrs, sem misstu við það sína hluti til MP-Banka.  Þeir hlutir fóru beint til Exeter Holding.  Stjórnarformaður Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, losaði sig við 54.104.865 hluti í sömu viðskiptum.  Síðar um haustið losaði svo annar stjórnarmaður í Byr, Birgir Ómar Haraldsson, sig við 64.039.876 hluti yfir til Exeter Holding.  Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort Jón Þorsteinn og Birgir Ómar seldu hluti sína beint til Exeter Holding eða hvort MP-Banki hafði lánað þeim (með veði í stofnfjárhlutum Byrs) og framkvæmdi veðkall, líkt og í tilfelli starfsmanna Byrs.

Þessi kaup Exeter Holding var Byr látinn fjármagna með yfirdráttarláni.  Eina veðið fyrir því láni voru stofnfjárbréfin sjálf.  Bréfin voru seld á fáránlegu yfirverði.

Tvennt ber sérstaklega að hafa í huga þegar viðskiptin á milli stjórnarmanna Byrs, þeirra Jóns Þorsteins og Birgis Ómars, MP-Banka og Exeter Holding eru skoðuð.  Það fyrra er að Jón Þorsteinn er fyrrum stjórnarmaður MP-Banka (þiggur laun fyrir stjórnarsetu á árinu 2007, er á skrá yfir stjórnarmenn 2006 (sjá ársreikninga MP, www.mp.is)).  Það seinna er að Ágúst Sindri Karlsson, aðaleigandi Exeter Holding, sat í stjórn með Jóni Þorsteini Jónssyni fram til 2007.  Ágúst Sindri sat einnig í stjórn MP-Banka á árinu 2008 og átti 4200 hluti í lok þess árs í MP-Banka.  Til samanburðar má nefna að Styrmir Þór Gunnarsson, forstjóri MP-Banka, átti 10.000 hluti í MP-Banka í lok árs 2008.

Að okkar mati er MP-Banki þarna ábyrgur fyrir vafasömum viðskiptum, auk stjórnarmanna Byrs og Exeter Holding.  Styrmir Þór Bragason [ekki Gunnarsson eins og misritaðist þegar þessi grein fór fyrst inn í morgun, (skrifað 9.4.2009 kl.14.48)], forstjóri MP-Banka, svaraði því til í Kastljósi að MP-Banki hefði engan hlut átt í þessum viðskiptum.  Ef Styrmir segir satt, væri áhugavert að fá skýringar á því hjá honum, eða öðrum forsvarsmönnum MP-Banka, hvað varð um þá 119.244.756 hluti í Byr sem MP-Banki var skráður fyrir þegar bankakerfið hrundi.  Þá væri áhugavert að fá að vita hjá Styrmi hvenær MP-Banki eignaðist þessa hluti og með hvaða hætti.  Að lokum væri snjallt hjá Styrmi að útskýra hvað hann á við með því að engin tengsl séu á milli Exeter Holding og MP-Banka.   

Kastljós:

http://www.ruv.is/kastljos/

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431357

Ársskýrslur MP-Banka má finna hér: http://www.mp.is/fyrirtaekid/utgafa/arsskyrslur

En aðeins að máli númer tvö:

Það voru fleiri stjórnarmenn í Byr en Jón Þorsteinn og Birgir Ómar sem losuðu sig við hluti í Byr eftir hrun bankakerfisins.  Jón Kristjánsson, núverandi stjórnarformaður, losaði sig við 25 milljón hluti yfir til IceCapital - sem er félag í hans eigu.  Það félag er einnig í eigu Páls Þórs Magnússonar, mágs Jóns.  Gunnþórunnar Jónsdóttir, móður Jóns er skráð sem varamaður í stjórn fyrirtækisins.  Gunnþórunn Jónsdóttir er ekkja Óla í Olís.

Páll Þór Magnússon, mágur Jóns og stjórnarmaður í Byr á árinu 2007, losaði sig einnig við 25 milljón hluti yfir til IceCapital. 

Miðbúðin ehf losaði sig svo við rúmlega 135 milljón hluti yfir til IceCapital.  Miðbúðin er í eigu Símonar S. Sigurpálssonar.  Símon og Páll Þór Magnússon eru m.a. veiðifélagar.  Eflaust eru meiri tengsl þeirra á milli, sem við hjónin höfum ekki fundið enn.

Við munum í framhaldinu útskýra viðskiptin nánar. 

Páll Þór Magnússon, Jón Kristjánsson, Símon S. Sigurpálsson og Birgir Ómar Haraldsson sitja allir í stjórn VBS-Fjárfestingabanka.  Það fyrirtæki birti ársuppgjör sitt í gær eftir mikið þóf og frestanir.  Nýlega var samþykkt 26 milljarða lán til VBS frá ríkinu, á vöxtum sem eru svo lágir að þeir nálgast að vera brandari á íslenskan mælikvarða. 

Við hvetjum alla til að skoða ársreikning VBS-Fjárfestingabanka með gagnrýnu hugarfari. 

http://www.vbs.is/files/VBS_Arsreikningur_2008.pdf

Njótið dagsins, Sveinn og Rakel

Skjámynd af vef VBS


Byr Sparisjóður misnotaður

Byr Sparisjóður

Byr Sparisjóður er, að mati ábyrgðarmanna þessarar vefsíðu, ágætlega rekið fyrirtæki að mörgu leyti.  Laun starfsmanna voru mun lægri en gekk og gerðist í bankakerfinu almennt, fyrirtækið stóð ekki í skuldsettum yfirtökum stórra fyrirtækja og lánaði fyrst og fremst til einstaklinga og meðalstórra fyrirtækja.  Þá hafði fyrirtækið ekki fjárfest í Exista, en slíkar fjárfestingar voru m.a. sparisjóðunum SPRON og SPKEF fjötur um fót. 

 

Byr Sparisjóður er jafnframt langstærsti sparisjóður Íslands, með starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi.  Byr er stór eigandi að TERIS, hugbúnarþjónustu sparisjóðanna og hefur tekið að sér forystuhlutverk í sparisjóðafjölskyldunni.  Byr er hinsvegar ógnað og þar með sparisjóðakerfinu á Íslandi.  Byr tapaði um 30 milljörðum á árinu 2008; þess skal þó getið að stór hluti þess taps var vegna niðurfærslna á útlánum, sem ekki er innleyst tap.  Eiginfjárhlufall Byrs er 8,3%, en lögfest lágmark þess hlutfalls er 8,0%.  Sótt hefur verið um aðstoð stjórnvalda til að leysa úr þessu, en stjórnvöld hafa heimild til að leggja um 11 milljarða inn í Byr skv. lögum. 

 

Stjórnarmenn bera ábyrgð á miklu tapi Byrs

Óhætt er að fullyrða að viðskipti með stofnfjárbréf í Byr-Sparisjóði hafi verið með sérstökum hætti eftir hrun bankakerfisins á Íslandi.  Stjórnarmenn í sjóðnum og MP-Banki eiga þar stóran hlut að máli. Við hjónin höfum sl. viku grafist fyrir um þessi viðskipti og munum á þessari síðu birta niðurstöður þeirra athugana.  Við hvetjum stofnfjáreigendur til að fylkja sér að baki Byr og reka út úr fyrirtækinu þá spillingu sem þar hefur hreiðrað um sig.  Við munum halda opinn fund um málið 8.apríl klukkan 17:00 á Grand Hótel - Gullteigi.  Mætum öll!

 

Viðskipti 1 - Exeter Holdings

Exeter Holdings fékk 19.desember sl (DV 31.3.09,bls.2) yfirdráttarlán upp á 1100 milljónir frá Byr til kaupa á stofnfé í Byr.  Ef miðað er við að þessar 1100 milljónir hafi allar runnið í hendur seljanda er áætlað virði Byrs í viðskiptunum 55-60 milljarðar. Eigið fé Byrs var 16 milljarðar 31.12.2008, þ.a. ljóst má vera að um fáránlegt yfirverð er að ræða.

 

Exeter Holdings eignast allan sinn hlut í Byr eftir hrun bankakerfisins, þegar stofnfjármarkaður MP-Banka með bréf Byrs er lokaður.  Hlutirnir sem Exeter Holding kaupir koma frá MP-Banka, stjórnarmönnum Byrs og starfsmönnum Byrs.  Líklegt er, í ljósi fréttar DV, að um veðköll hafi verið að ræða, þ.e. að MP-Banki hafi lánað starfsmönnum og stjórnarmönnum Byrs fyrir stofnfjáraukningu í Byr sem fram fór í desember 2007.  Lánið hefur verið með veði í stofnfjárbréfunum en að öllum líkindum með sjálfskuldarábyrgð 

Ágúst Sindri Karlsson, stærsti eigandi Exeter Holdings, var stjórnarmaður í MP-Banka árið 2008 og á 4200 hluti í MP-Banka.

 

Viðskipti 2 - Kemur síðar

Fundarboð

Fundarboð


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband