Leita í fréttum mbl.is

Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, ber af sér verkefnisstjórn

Á fundi SSB áðan kom fram í máli mínu að Birna Einarsdóttir hefði verið verkefnisstjóri yfir lánveitingum Glitnis til stofnfjáreigenda Byrs í árslok 2007. Mínar heimildir fyrir þessu komu frá starfsmönnum Glitnis, nú Íslandsbanka, eins og fram kom í máli mínu.

Birna Einarsdóttir hafði samband við mig nú rétt í þessu. Í símtali upp á rétt rúmar 10 mínútur bar Birna af sér að hafa verið verkefnisstjóri í lánveitingunum og er því hér með komið á framfæri. Hafi heimildir mínar verið rangar þykir mér það miður og biðst ég að sjálfsögðu velvirðingar á því.

Ýmislegt varðandi lánveitingar Glitnis til stofnfjáreigenda bar á góma í símtali okkar og varð niðurstaðan að Birna bauð mér á fund í næstu viku. Vafalaust mun sanngirni lánveitinga Glitnis verða meðal umræðuefna á þeim fundi.

Nýkjörin stjórn SSB mun koma saman á næstu dögum og munu samskipti við Glitni væntanlega verða rædd á þeim fundi, ásamt öðrum hagsmunamálum stofnfjáreigenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er fróðlegt svo ekki sé meira sagt.  +

Birna kúludrottning ber fleira af sér en aðkomuna að þessu dæmalausa samsæri.  Hún sneri jú á FME og sagðist aldrei hafa tekið lánið sitt til hlutabréfakaupanna í Glitni á sínum tíma - þó hún hafi lýst því fjálglega í drottningarviðtali í blöðunum að sér hefði liðið eins og "stóru strákunum" þegar hún tók lánið.  Þar gerði hún ekki lítið úr þeim ásetningi sínum að þiggja þessi "starfskjör" sín, en FME er ekkert að sökkva sér í þá yfirlýsingu hennar, enda er Gunnar Andersen á flótta sjálfur og öll orkan hans fer nú um stundir í að skýra aðkomu sína að vægast sagt skrítnum aflandsgerningum (e.t.v. ólöglegum).  Sérstök skoðun mun nú fara fram á hans aðkomu að því máli - en líklega er ekki meiri töggur í þeirri rannsókn en afgreiðslu Björns L Bergssonar skólabróður Jónasar Fr, sem veitti honum og seðlabankastjórunum syndaaflátsbréf "til bráðabirgða" nú nýverið.

En okkur Þorpurunum hér fyrir norðan er einnig hugleikið að dregið verði fram í dagsljósið hvort stjórn BYRS sem ákvað hina margfrægu stofnfjáraukningu upp á 30 þúsund milljónir í árslok 2007, samfara sameiningu við SPNOR, hafi í ljósi tengsla sinna inn í Glitnir (meira og minna sama "eigendaklíkan") farið að ákvæðum laga um virkan eignarhlut í sparisjóðum skv. lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Þetta var pressað í gegn, með hótunum um útþynningu um 86% ef stofnfjáreigendur væru ekki með!   Nú liggur fyrir að stjórnarmenn (og tengd fyrirtæki) hirtu alla þessa peninga án viðunandi veðrygginga í beinu framhaldi, enda tapaði BYR 29 þúsund milljónum strax á árinu 2008!

Mikið gekk á við að næla sér í þessa peninga um leið og þeir höfðu verið greiddir inn og Gunnar Sturluson hrl., faglegur framkvæmdastjóri LOGOS lögmenn, gegndi lykilhlutverki fyrir vin sinn Hannes Smárason við að kreista út fjármuni fyrir hans hönd í þessu ótrúlega ferli.

Hafi ákvæði laga um fjármálafyrirtæki verið brotin vegna ólögmætrar atkvæðagreiðslu vegna virks eignarhlutar, er samþykktin um stofnfjáraukninguna e.t.v. ólögmæt - og þá kannski ekki skuldbindandi fyrir stofnfjáreigendur sem ekki greiddu henni atkvæði - eða hvað?  Hvert eiga stofnjáraðilar þá að beina kröfum sínum - í þrotabú BYRS, eða á hendur sjórnarmönnum BYRS og e.t.v. Glitnis einnig - nú eða að FME og Jónasi Fr. einnig, sem virðist hafa sofið eins og barn, sama á hverju gekk...

Í okkar huga er dagljóst, að Glitnir og ýmsir starfsmenn þar, léku lykilhlutverk í þessum snúningi öllum - sumt sama fólkið og í dag er að pína stofnfjáreigendur til greiðslu á þeim lánasamningum sem stofnfjáaðilar voru píndir til að gera.  Sumir af þessum starfsmönnum Íslandsbanka eru nú sjálfir að fá "sérhannaða hreinsunarmeðferð" hjá núverandi stjórn Íslandsbanka, til að afskrifa sín eigin lán, sem veitt voru þeim án persónulegrar ábyrgðar, á kjörum sem voru til þess fallin að skaða bankann sjálfan strax í upphafi.

Það þarf að snýta þessum spillingarpésum!

Þorparinn.

Þorparinn (IP-tala skráð) 11.6.2010 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband