Leita í fréttum mbl.is

Hvað gekk mönnum til með sameiningarviðræðum Byrs og Glitnis?

Það er mjög athyglisvert að skoða fréttir frá því fyrir ári síðan.  Ein frétt sem er nánast akkúrat ársgömul, frá vef RÚV 23. september 2008, vekur athygli í dag.  Eins og bent er á í fréttinni voru margir viðskiptafélagar Jóns Ásgeirs Jónssonar áberandi í stofnfjáreigendahópi Byrs (þ.a.m. Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður Byrs).  Nokkrum dögum eftir þessa frétt mætti Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi stjórnarformaður Glitnis í Seðlabankann og fékk nei frá Davíð Oddssyni við lánsbeiðni Glitni til handa. 

Um það bil viku síðar (7. október) losaði Jón Þorsteinn sig við stofnfjárbréf fyrir hundruð milljóna yfir í Exeter Holdings, með fjármögnun frá Byr og misnotaði þannig aðstöðu sína gróflega. Þann gjörning kærðum við hjónin í apríl og hefur FME haft það mál til skoðunar æ síðan.  Margir stofnfjáreigendur hafa komið að máli við okkur og spurt hvers vegna FME sé ekki búið að afgreiða jafn augljósa misnotkun og um er að ræða í tilfelli Exeter Holdings.  Því er því miður ekki hægt að svara en seinagangurinn vekur furðu margra. 

Fréttina má nálgast hér, en hún er jafnframt afrituð hér að neðan:

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item227689/ 

"Hægt er að ná verulegri hagræðingu með samruna Glitnis og Byrs. Sú hagræðing næst með fækkun útibúa og starfsmanna. Við sameiningu Glitnis og Byrs yrði til næststærsti banki Íslands. Í hálffimm fréttum Kaupþings kemur fram að samanlagt markaðsverðmæti Glitnis og Byrs sé um 280 milljarðar króna.

Ef listi um stærstu stofnfjáreigendur Byrs er skoðaður má þar sjá marga af viðskiptafélögum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs, en hann er ráðandi í hluthafahópi Glitnis. Ef sameining á að skila mikilli hagræðingu er ljóst að fækka þarf útibúum og starfsfólki. Glitnir rekur 21 útibú, Byr 6. Augljós skörun er á fjórum stöðum. Á Akureyri eru Byr og Glitnir með útibú hlið við hlið og svipaða sögu er að segja í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Hjá Glitni starfa um 2.000 manns, helmingurinn á Íslandi. Hjá Byr eru starfsmenn 230.

Í Viðskiptablaðinu í dag segir að hægt sé að fækka starfsfólki um sem nemur starfsmönnum Byrs eða um 200 manns. Mestri hagræðingu sé hægt að ná í höfuðstöðvum bankanna eða stoðdeildunum. Heildarsparnaður gæti því verið um 3 til 5 milljarðar króna á ári. Það er um 10% af heildarrekstrarkostnaði bankanna tveggja sem blaðið segir að sé um 35 milljarðar á ári."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband