Leita í fréttum mbl.is

Glitnir, Íslandsbanki - þvílík sorgarsaga

Þar sem Íslandsbanki (áður Glitnir) virðist hafa ákveðið að ganga af hörku fram gegn stofnfjáreigendum er ekki úr vegi að nokkur grunnatriði varðandi Íslandsbanka verði rifjuð hér upp á síðunni.  Það mun verða gert hér næstu daga. 

 

Það sem m.a. vekur athygli þegar Glitnir/Íslandsbanki er skoðaður nánar er hversu lítil endurnýjun/útskipting starfsmanna úr stjórnendateymi bankans hefur orðið - eftir bankahrun.  Það hljómar óneitanlega sérstakt að starfsmenn sem sýndu ekki meiri getu en svo að verða fyrstir til að keyra íslenskan banka í kaf í langan tíma, eigi að sjá til þess að koma þar málum í betra horf.  Ágætis dæmi um starfsmenn sem athyglisvert er að skoða eru Vilhelm Már Þorsteinsson, Rósant Már Torfason, Jóhannes Baldursson og Ríkharð Ottó Ríkharðsson.

 

Vilhelm, Rósant og Jóhannes komu allir inn í framkvæmdastjórateymi Glitnis í maí 2008.  Þá höfðu þeir áður tekið við kúlulánum upp á tæpan milljarð hver þeirra, allt í gegnum einkahlutafélög.  Þessi lán voru svo auðvitað nýtt til að kaupa hlutabréf í Glitni og halda þannig verði þeirra uppi á óeðlilegan hátt.  Til að toppa athæfið var kauphöllinni ekki tilkynnt um innherjaviðskipti, þar sem viðskiptin voru látin eiga sér stað dagana áður en tilkynnt var um komu Vilhelms, Rósants og Jóhannesar í framkvæmdastjórnina.  Miðað við að um eins árs kúlulán hafi verið að ræða má vænta þess að þegar sé búið að afskrifa þessi lán.  Vilhelm, Rósant og Jóhannes starfa allir ennþá fyrir Íslandsbanka.

 

Ríkharð Ottó Ríkharðsson er líklega minna þekktur.  Hann hefur þó komist til talsverðra metorða hjá hinum nýja Íslandsbanka.  Svo sérstakt sem það kann að virðast var Ríkharð einmitt maðurinn sem mætti fyrir hönd Íslandsbanka á aðalfund Byrs og skilaði þar auðum atkvæðum upp á nokkur hundruð milljón stofnfjárhluti.  Ríkarð Ottó kemur einnig að stjórnun ýmissa félaga, m.a. Geysi Green Energy, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.  Þar kemur reyndar nafn Rósant einnig fyrir.Geysir Green

 

Rétt er að hvetja stofnfjáreigendur í Byr til þess að kynna sér núverandi starfsemi og stjórnendur Glitnis áður en þeir verða kallaðir til fundar við fyrirtækið.  Þegar Íslandsbanki hyggst setja stofnfjáreigendum í Byr afarkosti og stilla þeim upp við vegg má spyrja sig hvort ekki væri eðlilegra að taka fyrst til innandyra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband