Leita í fréttum mbl.is

Hver er staðan á umboði Karenar Millen?

Eins og mörgum er kunnugt, situr meirihluti stjórnar Byrs, Jón Kr. Sólnes, Guðmundur Geir Gunnarsson og Matthías Björnsson, í krafti ógilds og ólöglegs umboðs sem kom inn á aðalfund Byrs 13. maí sl. Rétt er að muna eftirfarandi staðreyndir um umboðið:

 

1. Ágúst Már Ármann, faðir Magnúsar Ármanns og stjórnarmaður í Byr 2008-2009 (skrifaði m.a. undir framlengingu lánsins til Exeter Holdings 19. desember, ásamt Jóni Kr. Sólnes) fór með umboðið inn á aðalfund Byrs. Þar sem umboðið var óvottað hefði aldrei átt að hleypa Ágústi inn á aðalfundinn með það, en Jón Finnbogason, löglærður starfsmaður á fjármálasviði Byrs, úrskurðaði að hleypa skyldi Ágústi inn á fundinn með umboðið. Talsverðan tíma tók fyrir Ágúst að komast inn á fundinn, enda stríðir það gegn samþykktum Byrs að framvísa umboði sem ekki er vottað.

 

2. Karen Millen var eigandi að bréfunum sem umboðið er gefið út á, en bréfin eru skráð á Kaupþing Lux. Það brýtur gegn samþykktum Byrs að skrá stofnfjárhluti á aðra en eigendur þeirra.  Rétt er að geta þess að Magnús Ármann keypti helmingshlut í Karen Millen fyrirtækinu á uppgangsárum útrásarinnar (sjá t.d. síðasta tölublað Séð og Heyrt)!

 

3. Stofnfjárhlutirnir voru geymdir á safnreikningi (nominee account) hjá Kaupþingi Lux. Það brýtur gegn reglugerð um safnreikninga (706/2008) að gefa út umboð til að fara með atkvæði fyrir hluti sem geymdir eru á safnreikningi. Kaupþing Lux ber ábyrgð á að slíkt sé ekki gert.

 

4. Ég heyrði af þessu furðulega umboði strax um kvöldið sem aðalfundurinn var haldinn (13. maí) og fékk staðfest sama dag að sá sem hafði farið með umboðið hefði verið Ágúst Ármann. Þá um nóttina óskaði ég eftir því að þessi umboð yrðu til umfjöllunar á stjórnarfundi daginn eftir. Þegar það var ekki gert, óskaði ég eftir því að fá að sjá umboðin, en fékk ekki. Þá hafði ég samband við fundarstjóra (Pétur Guðmundarson, lögfræðing hjá LOGOS) og FME. Fundarstjóri taldi sig ekki vald yfir málinu, þar sem aðalfundurinn var búinn. FME vísaði málinu frá sér föstudaginn 15. maí, klukkan 17. Þá var málið kært til lögreglu og þess óskað að kjörgögn yrðu haldlögð. Það var ekki gert og eftir helgina (mánudaginn 18. maí) vísaði lögreglan málinu frá sér. Þá vísaði ég málinu aftur til FME og reyndi að fá stjórn Byrs til að taka ábyrga afstöðu í málinu.

 

5. Málið er því hjá FME eins og er, en dómstólaleiðin er skoðuð alvarlega af hópi stofnfjáreigenda, sem ætla ekki að láta bjóða sér að meirihluti stjórnar sitji ekki í umboði aðalfundar og að lýðræðið sé fótumtroðið hjá Byr.

 

6. Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, héraðsdómslögmaður hjá LOGOS, hefur afhent stjórn Byrs minnisblað þar sem fram kemur að skv. hans áliti, sé aðalfundur Byrs löglegur og ákvörðunum sem þar hafi verið teknar verði eingöngu breytt með dómi (http://www.byr.is/upload/files/byr/minnisblad_um_adalfund_2009.pdf) 

 

Niðurstaðan er sú að fjármálaeftirlitið hefur ekki úrskurðað í málinu á þeim mánuði sem liðinn er frá aðalfundinum,  LOGOS telur aðalfundinn löglegan, meirihluti stjórnar situr enn og vilji stofnfjáraðila í kosningum er fótum troðinn.

 

Spurningin er núna, hvað á að gera í málinu?

 

Kveðja,

Sveinn Margeirsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband