Leita í fréttum mbl.is

Víðtæk samstaða meðal velunnara Byrs sparisjóðs

Það er greinilegt að stofnfjáreigendur í Byr eru staðráðnir í því að snúa bökum saman og eru reiðubúnir til að leggja mikið á sig til að sjóðurinn megi dafna um ókomna tíð, sem Byr Sparisjóður.

Alls hafa um 400 manns mætt á fundi okkar sem haldnir voru undir slagorðinu “Verjum Byr sparisjóð” sem haldnir voru þann 8.apríl á Grand Hóteli, Reykjavík og þann 14.apríl á Hótel KEA, Akureyri . Á báðum fundunum var samþykkt ályktun sem við munum afhenda fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni á næstu dögum.

Það hafa mjög margir stofnfjáreigendur haft samband við okkur og lýst yfir miklum stuðningi við framtak okkar. Velunnarar Byrs eru margir, ekki einungis stofnfjáreigendur, heldur hafa líka margir viðskiptavinir sjóðsins sett sig í samband við okkur auk starfsfólks og annarra velunnara. Í máli fólks kemur sterklega fram hversu annt fólki er um þessa máttarstoð íslensks samfélags. Viðskiptavinirnir hrósa starfsfólkinu í hástert og á sama tíma höfum við skynjað hversu sterkt starfsfólkið ber hag Byrs fyrir brjósti. Eftir samtal við mikinn fjölda stofnfjáreigenda og lestur tuga tölvupósta frá velunnurum Byrs er okkur ljóst að breiðfylking fólks sem ann sparisjóðakerfinu hefur fylkt sér að baki Byr sparisjóði og vill tryggja framtíð sjóðsins.

En breytinga er þörf og krafa um stjórnarskipti er hávær. Margir vilja legga sitt af mörkum til frekari uppbyggingar Byrs og tryggja að í stjórn sjóðsins sitji einungis grandvart og heiðarlegt fólk. Samstaða um að standa að baki stjórn sem ynni að heilindum með hagsmuni viðskiptavina og sjóðsins alls að leiðarljósi er ofar öllu í viðtölum okkar við stofnfjáreigendur. Samhliða því að stofnfjáreigendur eru tilbúnir til að fylkja sér að baki sjóðnum er rík krafa um að stjórnvöld styðji vilja stofnfjáreiganda til góðra verka með sveigjanleika og biðlund þegar semja þarf um endurgreiðslur lána sem stofnfjáreigendur hafa ráðist í til að styrkja eiginfjárstöðu sjóðsins.

Það að tryggja hugmyndafræði sparisjóðakerfisins brautargengi til framtíðar er fólki ofarlega í huga og greinilegt er að það er almennur vilji velunnara Byrs sparisjóðs að vinna hörðum höndum að endurreisn heilbrigðrar bankastarfsemi. Stöndum saman í meðByr og mótByr – Byr sparisjóði til framtíðarheilla.

Kveðja

Sveinn og Rakel


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir
Stofnfjáraðilar í Byr. Áhugafólk um að heilbrigt sparisjóðakerfi fái að dafna á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband